Sirrý mætir í leikstofuna á Barnaspítala Hringsins alltaf þegar páskar nálgast til þess að gera páskaegg með börnunum. Hún er búin að gera þetta í nokkur ár og það er alltaf jafn vinsælt og vel mætt í föndrið. Stundum verða þetta hálfgerðar fjölskyldustundir þegar foreldrarnir koma líka og systkini.
Sirrý heitir reyndar Guðrún Sigríður Ágústsdóttir. Hún er matreiðslumaður og kann því vel til verka . Þetta hófst þegar Sirrý var með dóttur sína á barnaspítalanum og þær fóru að föndra með börnunum. "Súkkulaðismiðjan" á leikstofunni byrjaði þó ekki með páskaeggjum heldur jólakonfektgerð og fyrir hver jól mætir Sirrý og býr til jólakonfekt með börnunum. Það nýtur mikilla vinsælda og allt er heimatilbúið. Fyrir páskana kemur Nói - Síríus hins vegar til aðstoðar og leggur til hráefnið. Eggin koma í hlutum sem börnin líma saman, stilla unganum upp á toppinn og stinga egginu svo í plastpoka. Þar með er páskaeggið orðið alveg eins og út úr búð og bragðgæðin söm og jöfn, ef ekki enn meiri þegar maður hefur gert svona mikið sjálfur.
Það kom stór hópur barna með foreldrum sínum í páskaeggjagerðina á leikstofunni 2. apríl 2009 þegar Sirrý kom í þetta skipti, bæði börn af barnaspítalanum og líka Rjóðri, dvalarheimili fyrir langveik börn í Kópavogi, en milli Rjóðurs og Barnaspítala Hringsins eru náin tengsl.