Vigdís lauk námi frá Hjúkrunarskóla Íslands árið 1956. Á árunum 1958-1960 var hún við nám og störf í hjúkrun í Bandaríkjunum. Síðar fór hún til framhaldsnáms í Noregi og lauk þar námi í spítalastjórnun árið 1972.
Vigdís starfaði sem hjúkrunarfræðingur á St. Jósefsspítala Hafnarfirði á árunum 1961-1970, aðstoðarforstöðukona Landspítala 1970-1973 og hjúkrunarforstjóri til 1995 þegar hún tók við starfi forstjóra Landspítala sem hún gegndi til ársins 1999.
Vigdís var um árabil leiðandi í æskulýðsstarfi KFUM og K. Hún var ein af brautryðjendum Kristilegs félags heilbrigðiskvenna sem stofnað var árið 1952, gegndi þar formennsku og var síðar formaður Kristilegs félags heilbrigðisstétta um árabil.
Vigdís var farsæll leiðtogi og naut hvarvetna virðingar og trausts fyrir störf sín. Hún gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum á sviði heilbrigðis- og velferðarmála, var heiðursfélagi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu.