Vefjaflokkunardeild Blóðbankans fékk nýlega faggildingu á starfsemi sinni. Faggildingin er veitt af EFI (European Federation for Immunogenetics) sem eru evrópsk samtök aðila sem vinna á sviðum ónæmiserfðafræði í tengslum við líffæraígræðslur og vefjaflokkanir.
Á Norðurlöndunum hafa menn sett sér að hafa faggilta vefjaflokkunarstarfsemi. Starfsemi vefjaflokkunardeildar Blóðbankans hefur undanfarin ár verið byggð upp í samræmi við ISO 9001 stjórnunarstaðalinn eins og önnur starfsemi Blóðbankans. Sá grunnur auðveldaði vinnuna við að uppfylla kröfur EFI faggildingarstaðalsins.
Árið 2008 fékk vefjaflokkunardeild Blóðbankans styrk frá Landspítala vegna klínísks gæðaverkefnis sem bar heitið: "EFI vottun vefjaflokkunardeildar Blóðbankans". Styrkur þessi var notaður til að standa undir hluta þess kostnaðar sem vottun sem þessi hefur í för með sér.
Faggildingin er Blóðbankanum og Landspítala mikilvæg því með henni er sýnt fram á að vefjaflokkunardeildin er samanburðarhæf við aðrar rannsóknarstofur í Evrópu hvað varðar gæði starfseminnar.