Ungmennafélag Íslands hefur afhent Hollvinum Grensásdeildar um 1,3 milljónir krónar sem söfnuðust með hlaupi Gunnlaugs Júlíussonar frá Reykjavík á Landsmót UMFÍ á Akureyri í júli 2009. Ofurhlauparinn lagði af stað að morgni sunnudagsins 5. júlí og lauk hlaupinu þegar landsmótið var sett föstudagskvöldið 10. júlí. Hann átti sjálfur hugmynd að þessum stuðningshlaupi fyrir söfnun sem Edda Heiðrún Backman ýtti úr vör í sumar undir heitinu "Á rás fyrir Grensás". Gunnlaugur var fyrsti maðurinn sem tók á rás fyrir Grensás en fleiri eiga eftir að bætast í hópinn þegar líður á sumarið. Hlaup Gunnlaugs norður var einnig til minningar um Jón H. Sigurðsson hlaupara frá Úthlíð.
Helga Guðrún Guðjónsdóttir formaður UMFÍ afhenti Gunnari Finnssyni formaður Hollvina Grensásdeildar söfnunarféð, að viðstöddum hlauparanum, Eddu Heiðrúnu Backman, Þóri Steingrímssyni varaformanni Hollvinasamtakanna, fjölmargra starfsmanna á Grensási og fleira fólks.
Hægt er að leggja söfnuninni lið og styrkja þannig og efla starfsemina á Grensási, reikningsnúmerið er 0311-26-3110, kt. 6704061210