Þáttaskil urðu í starfseminni á Reynimel 55 þriðjudaginn 1. september 2009 þegar formlega var lagt niður margra ára farsælt endurhæfingarstarf þar. Sú ákvörðun var í samræmi við þá stefnu Landspítala að fækka legurýmum eins og kostur er og hagræða í rekstri. Legurýmum fækkar við þetta um 5 og stöðuheimildum um 3-4. Þrír starfsmenn sem eftir voru á Reynimel flytjast til starfa í endurhæfingu LR á Laugarásveg 71 en þar er verið að efla starf sem felst í því að fjölga dagvistarúrræðum í fjögur og auka og efla aðra þætti starfseminnar.
Við þessi tímamót var samverustund á Reynimel 55 þriðjudaginn 1. september þar sem María Einisdóttir mannauðsstjóri geðsviðs tók við lyklunum fyrir hönd Páls Matthíassonar framkvæmdastjóra sviðsins sem var fjarverandi. Viðstaddur þessa samverustund voru einnig Hagerup Ísaksen (Rúbbi) umsjónarmaður sem hefur um árabil verið liðtækur við umsjón húsnæðisins á Reynimelnum, svo og starfsmennirnir þrír sem sáu um endurhæfingu þeirra einstaklinga sem dvöldu í lokin; Ingibjörgu Friðbertsdóttur, Jenný Árnadóttur og Hafdísi Brandsdóttur voru færðar sérstakar þakkir. Daði Óskarsson starfsemisskrásetjari í endurhæfingu LR sá um myndatökur og fleira.
Litið var stuttlega yfir farinn veg og húsið kvatt með miklu þakklæti. Fröken Guðríður Jónsdóttir, fyrrverandi forstöðukona á Kleppi, keypti húsið að Reynimel 55 árið 1963 þar sem hún bjó í 10 ár og hafði í dvöl hjá sér 8-9 sjúklinga sem flestir stunduðu vinnu. Árið 1973, þegar Guðríður flutti úr húsinu, færði hún Kleppsspítala það að gjöf og var það lengi rekið í formi sambýlis. Í lok níunda áratugarins komu nýjar áherslur og farið var að færa starfsemina í átt til markvissari endurhæfingar. Síðustu árin hefur starfsemin á Reynimel verið rekin í tengslum við Laugarásveg 71.