Grunnskólinn á Barnaspítala Hringsins hefur fest kaup á fimm Dell fartölvum og tveimur borðtölvum fyrir styrk frá kvenfélaginu Hringnum. Tölvunotkun hefur aukist mjög í öllu skólastarfi og því kemur þessi styrkur skólanum mjög vel. Nemendur geta fengið fartölvur til afnota meðan á sjúkrahúsdvöl stendur.
Grunnskólinn á barnaspítalanum er rekinn í samstarfi við Austurbæjarskóla. Skólinn starfar á þeim tíma árs sem kennsla er í almennum skólum. Flestir nemendur koma af deildum Barnaspítala Hringsins en auk þess sinnir grunnskólinn börnum frá Landspítala Grensási, Rjóðrinu og húðdeild spítalans. Kennslan miðast við anda grunnskólalaga og er komið til móts við þarfir sjúkra barna þannig að þau geti notið náms þrátt fyrir veikindi og sjúkrahúsvist. Ef um langvarandi sjúkrahúsdvöl er að ræða er oft komið á fjarfundarsambandi við skóla nemenda.