Félagar í Rebekkustúkunni nr. 4 Elísabet komu færandi hendi á endurhæfingardeildina á Grensási 7. desember 2009. Færðu þær sundlaug deildarinnar að gjöf tvo breiða, rafknúna, hækkanlega bekki og tvo baðhjólastóla.
Bekkirnir veita fötluðum einstaklingum sem koma í laugina betri möguleika á að vera alveg sjálfbjarga við að klæða sig og baðhjólastólarnir eru kærkomin viðbót við búnað laugarinnar. Gjafirnar koma í mjög góðar þarfir og bæta úr brýnni þörf.
Tildrög þessara gjafa er heimsókn Eddu Heiðrúnar Backman til Elísabetarsystranna síðastliðið vor en í framhaldi af þeirri heimsókn var átakið “Á rás fyrir Grensás” sett af stað.