MND félagið hefur fært MND teyminu á taugalækningadeild Landspítala að gjöf hjólastólavog. Marel smíðaði vogina og gaf hana félaginu sem gaf hana síðan áfram til teymisins. Marel sendir ekki jólakort að þessu sinni en ákvað að smíða og gefa vogina í staðinn.
Guðjón Sigurðsson formaður MND félagsins afhenti hjólastólavogina 22. desember 2009, að viðstöddum fulltrúum Marels og taugalækningadeildarinnar.
Til þessa hafa verið slæmar aðstæður til þess að vigta þá göngudeildarsjúklinga á taugalækningadeild sem eru í hjólastólum. Lengi var notast við ófullkomna vog sem er nú ónýt. Eina leiðin hefur verið að að nýta búnað á legudeild þar sem hægt er að hífa sjúklinginn upp.
Það er afar mikilvægt að fylgjast vel með þyngd sjúklinganna og hjólastólavogin er kærkomin til þess því nú er hjólastólnum einfaldlega rennt upp á vogina. Gjöfin kemur þannig í góðar þarfir fyrir starfsfólkið en umfram allt sjúklingana.
Mynd: MND félagið færði MND teyminu á taugalækningadeild hjólastólavog sem Marel smíðaði og gaf félaginu í desember 2009. Guðjón Sigurðsson afhenti gjöfina, að viðstöddum Óskari Óskarssyni og Guðjóni Stefánssyni svæðissölustjórum fyrir Ísland hjá Marel og MND teyminu.
Skylt efni:
Vefur MND félagsins
Vefur Marels