Stjórn Kristínarsjóðs, minningarsjóðs í vörslu Krabbameinsfélags Íslands, hefur fært Barnaspítala Hringsins að gjöf 6 sjónvarpstæki ásamt DVD spilurum og Playstation leikjatölvur, samtals að andvirði um ein milljón króna. Tilefnið er að 100 ár eru liðin frá fæðingu Kristínar Björnsdóttur, fyrrverandi starfsmanns Sameinuðu þjóðanna, sem lagði sjóðnum til fjármagn.
Kristínarsjóður styður við rannsóknir á krabbameinum í börnum sem og aðhlynningu krabbameinssjúkra barna.
Minningargjöfin er veitt dagdeild Barnaspítala Hringsins en þar koma meðal annars krabbameinsveik börn til lyfjagjafar. Gjöfin nýtist börnum sem þurfa að sækja þjónustu dagdeildarinnar, systkinum þeirra, aðstandendum og vinum.
Um Kristínu Björnsdóttur:
Jakob Jóhannsson læknir á Landspítala er í stjórn Kristínarsjóðs:
"Líf Kristínar var afar merkilegt og viljum við minnast hennar með því að veita sérstaklega vel úr sjóðnum í ár í tilefni þess að 100 ár eru frá fæðingu hennar. Árið 1937 fluttist Kristín til útlanda og dvaldist m.a. í Frakklandi og á Ítalíu. Þar kynntist hún ýmsum frammámönnum og var um tíma málakennari dóttur Mussolini. Á stríðsárunum kynntist Kristín mörgum háttsettum Þjoðverjum sem vildu fá hana til að njósna fyrir nasista. Þegar hún neitaði var hún send í fangabúðir þar sem hún dvaldi við illan aðbúnað í þrjú ár með öðrum pólitískum föngum. Eftir að bandamenn frelsuðu Evrópu starfaði hún sem túlkur fyrir Rauða krossinn og flutti síðan til Bandaríkjanna. Þar gekk hún í skóla stórfyrirtækisins IBM og vann síðan fyrir Sameinuðu þjóðirnar í 23 ár. Það kom í hennar hlut að draga íslenska fánann að hún í fyrsta skipti þegar Ísland gerðist aðili að Sameinunuðu þjóðunum. Við starfslok árið 1969 fluttist Kristín aftur til Íslands. Hún lést úr krabbameini árið 1994."
Mynd: Jakob Jóhannsson læknir og stjórnarmaður í Kristínarsjóði ásamt Sigrúnu Þóroddsdóttur hjúkrunarfræðingi og skjólstæðingum Barnaspítalans sem fögnuðu veglegri jólagjöf sjóðsins til dagdeildarinnar, Kolbrúnu Ósk, Gunnari og Bjarti bróður hans.