Auk björgunarsveitarmannna og bráðatækna frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðsins leggur bráðasvið Landspítala björgunarsveitinni sem nú er við hjálparstörf á Haítí til lækni. Með í förinni er Hlynur Þorsteinsson frá slysa- og bráðadeild en hann hefur oftast allra lækna tekið þátt í störfum sveitarinnar. Gert er ráð fyrir að leiðangrinum ljúki í vikulokin. Sveitin hélt til Haítí kl. 11:20 miðvikudaginn 13. janúar 2010 en jarðskjálftinn þar reið yfir kl. tæplega 22:00 kvöldið áður.
Útkall hófst aðeins klukkustundu eftir að ósköpin dundu yfir. Við undirbúninginn þá starfaði meðal annarra Elín Edda Sigurðardóttir læknakandídat en hún hefur verið í alþjóðasveitinni sem björgunarsveitarmanneskja og nú síðast sem læknakandídat við alþjóðlega úttekt sem gerð var á starfi sveitarinnar síðastliðið haust. Þá hefur Gunnar Guðmundsson lungnalæknir lagt af mörkum mikið af mörkum við skipulag og undirbúning alþjóðasveitarinnar að undanförnu.
Þátttaka Landspítala í Íslensku alþjóðasveitinni byggir á samningi milli spítalans og Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem gerður var í september 2007. Samkvæmt honum hefur Landspítali ýmsum skyldum að gegna varðandi starfsemi Íslensku alþjóðasveitarinnar, meðal annars varðandi fræðslu, lyf og læknisbúnað auk þess sem spítalinn tryggir að alltaf sé að minnsta kosti einn læknir til taks í útkallsliði Íslensku alþjóðasveitarinnar.
Mynd: Íslenska alþjóðasveitin á Haítí í janúar 2010 - Úr myndabanka Slysavarnafélagsins Landsbjargar
Tengt efni:
Ljósmyndir frá starfi Íslensku alþjóðsveitarinnar á Haítí
á vef Slysavarnafélagsins Landsbjargar
Um Íslensku alþjóðasveitina
á vef Slysavarnafélagsins Landsbjargar