Ljósmyndasýning á verkum Inger Helene Bóasson ljósmyndara verður opnuð á Landakoti, 3. og 4. hæð, föstudaginn 22. janúar 2010, kl. 15:30. Sýningunni lýkur 25. apríl. Öllum er velkomið að skoða sýninguna.
Á árinu 2008 og 2009 voru gerðar miklar breytingar á Landakoti. Stigagangar voru málaðir og lýsing bætt. Þá voru gerðar breytingar á upphengingu listaverka. Gamlar ljósmyndir frá fyrstu árum Landakots voru settar upp á 1. hæð og sett upp “portrettgallerí„ í stigagangi milli gamla og nýja spítala. Aðstaða á 2. hæð þar sem messuhald fer fram var stórbætt.
Í framhaldi af þessum breytingum var ákveðið að bjóða listamönnum að sýna verk sín á Landakoti á 3. og 4. hæð. Nú þegar hafa verið haldnar tvær sýningar með verkum listmálararanna Þórunnar Birgisdóttur (maí til september 2009) og Margrétar Jónsdóttur (september 2009 til janúar 2010).
Um ljósmyndarann (pdf)
Hjúkrunarfræðingar útskrifaðir árið 1974
Myndirnar á Landakoti eru úr þremur ólíkum áttum:
Hjúkrunarskóli Íslands 1974 - Myndir frá útskrift vinkonu Inger haustið 1974 sem hafa verið settar inn í gamla glugga úr húsi Hjúkrunarskólans, Eirbergi, en skipt var um glugga þegar húsið var gert upp sumarið 2008. Inger hirti nokkra glugga, sem nú eru orðnir ljósmyndarammar.
Laugardalslaug - Myndir sem unnu til verðlauna Ljósmyndafélags Íslands á sýningu í Gerðarsafni í Kópavogi árið 2002.
Brot úr fjörunni - Myndir sem voru á sýningu sem Inger hélt í Kirkjuhvoli á Akranesi sumarið 2005. Myndirnar sýna rusl í fjörunni við Eiðisgranda þar sem sorphaugar Reykvíkinga voru fyrr á árum.