Kvenfélagasamband Gullbringu- og Kjósarsýslu (KSGK) stendur fyrir sölu á merkinu
"Gleym mér ei" dagana 5. til 7. mars 2010 á sambandssvæðinu og rennur ágóði óskertur til barna-og unglingageðdeildar Landspítala, BUGL. Konur úr kvenfélögunum, sem eru 10 innan sambandsins, sjá um söluna og það hafa þær áður gert á svipaðan hátt til styrktar barna- og unglingageðdeild LSH.
Af þessu tilefni var Sigurlaugu Viborg, forseta Kvenfélagasambands Íslands, afhent fyrsta merkið við hátíðlega athöfn í húsnæði félagsins að viðstöddum stjórnarkonum í KSGK, Ólafi Ó. Guðmundssyni, yfirlækni legudeildar BUGL, Vilborgu G. Guðnadóttur, deildarstjóra legudeildar, Lindu Kristmundsdóttur, deildarstjóra göngudeildar, og Þórunni B. Haraldsdóttur sjúkraliða.