Margrét I. Hallgrímsson hefur verið ráðin hjúkrunardeildarstjóri sameinaðrar göngudeildar mæðraverndar og fósturgreiningar á kvenna- og barnasviði frá 1. apríl 2010.
Margrét lauk námi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1986, námi í ljósmóðurfræði 1990 og meistaranámi í hjúkrunarfræðideild HÍ 2003. Hún starfaði á handlækningadeildum Ríkispítalanna frá 1986-1988. Frá 1990-2000 starfaði hún sem ljósmóðir á ýmsum deildum kvennasviðs, lengst af á fæðingargangi og í MFS einingunni. Árið 2000 tók hún við starfi sviðsstjóra hjúkrunar á kvennasviði og gegndi því starfi í 8 ár. Á þeim tíma starfaði hún í mörgum nefndum LSH og var m.a. formaður jafnréttisnefndar LSH. Margrét var formaður í deild hjúkrunarstjórnenda innan félags íslenskra hjúkrunarfræðinga frá 2006-2008 og átti þá sæti í stjórn LNN, Ledarnas nätverk i Norden.
Margrét hefur unnið að þróun ljósmóðurfræðinnar innan LSH í samstarfi við kennara ljósmóðurnámsins innan HÍ. Hún var aðjúnkt við HÍ frá 2002-2006 og fékk klíníska lektorsnafnbót frá HÍ 2009. Hún hefur haldið fyrirlestra út frá meistararitgerð sinni á ýmsum stöðum innan lands sem utan. Sem sviðsstjóri hefur Margrét haldið fyrirlestra m.a. um DRG fjármögnun auk annarra er lúta að stjórnun.
Margrét var í leyfi frá LSH í eitt ár 2008-2009 og vann þá á fæðingardeildinni á Hvidovre Hospital í Kaupmannahöfn. Síðustu 6 mánuði hefur hún unnið að verkefnum á vegum LSH og verið að hluta til starfandi sem ljósmóðir í áhættumæðraverndinni á 22B á kvennasviði.