Ungur vísindamaður ársins 2010 á Landspítala er Berglind Guðmundsdóttir sálfræðingur. Tilkynnt var um það á vísindadagskrá Vísinda á vordögum, árlegri uppskeruhátíð vísindastarfs á Landspítala 4. maí. Vísindamaðurinn flutti síðan stutt erindi um rannsóknir sínar.
Ágrip
Berglind Guðmundsdóttir er fædd árið 1972. Hún lauk BA prófi í sálfræði frá HÍ árið 1998. Berglind lagði stund á framhaldsnám í klínískri sálarfræði við Ríkisháskóla New York ríkis í Buffaló í Bandaríkjunum. Hún lauk þaðan meistaraprófi árið 2004 og doktorsprófi árið 2006 með áherslu á kvíðaraskanir og afleiðingar áfalla. Berglind er löggiltur sálfræðingur á Íslandi frá 2006 og klínískur dósent við sálfræðideild Háskóla Íslands frá 2010. Berglind hefur starfað sem sálfræðingur hjá Landspítala frá árinu 2006. Berglind sinnir greiningar- og meðferðarvinnu við áfallamiðstöð/neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis á Landspítala. Hún stundar rannsóknir á eðli og afleiðingum áfalla og sinnir einnig handleiðslu annarra fagaðila. Berglind er stundakennari við Háskóla Íslands og Endurmenntun HÍ og handleiðir nema í starfsnámi og lokaverkefnum. Hún hefur haldið fjölda fyrirlestra og námskeiða tengd afleiðingum og úrvinnslu áfalla.
Helstu áherslur í rannsóknum
Berglind vinnur nú að tveimur stórum rannsóknarverkefnum. Hún er ábyrgðar- og umsjónarmaður þeirra en verkefnin eru unnin í nánu samstarfi við samstarfsaðila hennar.
-Heiti verkefnis: Áhrif jarðskjálftans 29. maí 2008 á íbúa á Suðurlandi
Samstarfsaðilar: Dr. Jakobi Smári prófessor við sálfræðideild HÍ og dr. Unnur Valdimarsdóttir forstöðumaður Miðstöðvar í Lýðheilsuvísindum við HÍ, dr. Ragnar Sigbjörnsson, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar í jarðskjálftaverkfræði við HÍ, Landlæknisembættið, Rauði kross Íslands, Þjóðkirkjan, Almannavarnadeild Ríkislögregluembættisins. Meistaranemi við verkefnið er Karen Ragnarsdóttir og vinnur hún að lokaverkefni sínu úr hluta gagnanna.
Um er að ræða viðamikla rannsókn á sálrænum afleiðingum jarðskjálftans í Ölfusi 29. maí 2008. Einungis hefur verið unnið úr hluta gagnasafnsins en ætla má að verkefnið varpi ljósi á þróun sálrænna vandamála í kjölfar náttúruhamfara á Íslandi.
-Heiti verkefnis: Tíðni áfallastreituröskunar og annarra erfiðleika í kjölfar áfalla
Innlendir samstarfsaðilar: Dr. Jakobi Smári prófessor við sálfræðideild HÍ og dr. Unnur Valdimarsdóttir forstöðumaður Miðstöðvar í Lýðheilsuvísindum við HÍ.
Erlendur samstarfaðili: National Crime Victims Research and Treatment Center, Medical University of South Carolina, USA. CandPsych nemar við verkefnið eru Guðrún Ágústa Eyjólfsdóttir og Steinunn Anna Sigurjónsdóttir en þær vinna að lokaverkefnum sínum úr hluta gagnanna. Auk þess tekur Edda Björk Þórðardóttir doktorsnemi þátt í verkefninu og mun skrifa vísindagrein úr hluta ganganna.
Verkefnið er fyrsta skrefið í röð rannsókna sem Berglind gerir ráð fyrir að framkvæma á næstu árum á áfallastreituröskun og öðrum afleiðingum áfalla. Verkefnið felur í sér forprófun við íslenskar aðstæður á viðtalsmælitæki sem mælir áfallastreituröskun. Eins er það von hennar að það varpi ljósi á eðli áfalla og afleiðinga þeirra meðal Íslendinga.
Auk þess vinnur Berglind að öðrum smærri verkefnum. Þar ber helst að nefna verkefnið Örugg saman sem unnið er í samstarfi við Lýðheilsustöð. Um er að ræða forvarnarverkefni þar sem markmiðið er að draga úr ofbeldi í nánum samböndum meðal unglinga.