Heiðursvísindamaður Landspítala 2010 er Þórarinn Gíslason yfirlæknir á lungnadeild. Tilkynnt var um heiðrunina á vísindadagskrá Vísinda á vordögum, árlegri uppskeruhátíð vísindastarfs á Landspítala 4. maí. Heiðursvísindamaðurinn flutti síðan fyrirlestur um niðurstöður rannsókna sinna.
Þórarinn Gíslason lauk stúdentsprófi frá MR árið 1971 og útskrifaðist frá læknadeild HÍ vorið 1977. Hann stundaði framhaldsnám í lungnalækningum við Háskólasjúkrahúsið í Uppsölum í Svíþjóð og hlaut sérfræðiviðurkenningu í lungnasjúkdómum 1984. Þórarinn varði doktorsritgerð sína um kæfisvefn við Uppsalaháskóla vorið 1987: Sleep Apnea Syndrome - clinical symptoms, epidemiology and ventilatory aspects. Eftir heimkomu til Íslands (1987) hélt hann áfram rannsóknum á svið faraldsfræði kæfisvefns; nú meðal kvenna og barna ásamt þátttöku í alþjóðlegum rannsóknum á sviði astma, ofnæmis, langvinnrar lungnateppu og kæfisvefns. Einnig handleiðslu meistara- og doktorsnema. Þórarinn er frá árinu 2001 yfirlæknir sameinaðrar lungnadeildar Landspítala og prófessor við læknadeild HÍ frá 2003. Hann er einnig gestaprófessor við University of Pennsylvania og dósent við Uppsalaháskóla.
Helstu áherslur í rannsóknum
Þórarinn hlaut árið 2002 ásamt samstarfsaðilum (Prófessor Allan I. Pack, Fíladelfíu í Bandaríkjunum og Íslenskri erfðagreiningu) styrk frá bandarísku heilbrigðisstofnunni (NIH) til að rannsaka erfðir og eðli kæfisvefns á Íslandi. Gagnasöfnum í þeirri rannsókn lauk árið 2009 og er verið að vinna úr niðurstöðum. Alls hafa á Íslandi greinst um 6.500 sjúklingar með kæfisvefn frá árinu 1987. Hátt í helmingur þeirra hefur tekið þátt í rannsókninni og þar á meðal 824 sem fóru í mjög umfangsmiklar rannsóknir áður en þeir hófu meðferð með svefnöndunartæki. Þessum hópi hefur verið fylgt eftir tveimur árum síðar og árangur meðferðar metinn.
Haustið 2009 veitti bandaríska heilbrigðisstofnunin prófessor Allan I. Pack nýjan styrk til þriggja ára rannsókna á kæfisvefni. Hluti þeirrar rannsóknar fer fram við lungnadeild Landspítala og nemur framlagið til LSH tæpum 200 milljónum króna á þessu tímabili. Ætlunin er að bjóða ómeðhöndluðum kæfisvefnssjúklingum til ítarlegs mats á ástandi hjarta og æðakerfis með segulómun af hjarta, þykktarmælingum á innri vegg hálsslagæða ásamt sólarhrings skráningu á hjartslætti og blóðþrýstingi. Eftir fjögra mánaða meðferð með svefnöndunartæki (CPAP) verða sömu rannsóknir endurteknar. Leitað verður svara við spurningum um samspil kæfisvefns við hjarta- og æðasjúkdóma og á hvern hátt megi meta þá áhættu með mælingum bólguboðefna í blóði. Til viðbótar verður skoðað sérstaklega hvernig sjúklingum með kæfisvefn líður fyrir og eftir meðferð.
Þórarinn hefur einnig leitt íslenska þátt alþjóðlegs rannsóknarverkefnis: Evrópukönnunin Lungu og Heilsa (www.ecrsh.org), þar sem algengi astma, ofnæmis og langvinnrar lungnatepptu (LLT) hefur verið kannað reglulega á Íslandi. Ætlunin er að endurtaka þá rannsókn á haustmánuðum. Hann leiddi einnig nýlega þátttöku Íslands í alþjóðlegu verkefni um algengi og eðli LLT (Burden of Obstructive Lung Disease (BOLD), sjá www.boldstudy.org.
Fyrstu niðurstöður þeirrar rannsóknar benda til þess að LLT sé síst fátíðari hér en í samanburðarlöndum vegna mikilla reykinga, einkum meðal kvenna. Einnig má draga ýmsan hagnýtan lærdóm af samanburði á kostnaði við umönnun og meðferð LLT á Íslandi og í Bergen.