Miðstöð um sjúkrarskrárritun á Landspítala er opnuð formlega mánudaginn 17. maí 2010 og tekur þá til starfa. Hún er orðin til við endurskipulagningu á starfsemi læknaritara á spítalanum, í samræmi við ákvörðun framkvæmdastjórnar í desember 2009.
Sjúkraskrármiðstöðin hefur aðsetur á Landspítala Kópavogi, Kópavogsbraut 5 - 7. Húsnæðið þar hefur verið endurbætt mikið til þess að gegna nýju hlutverki.
Á miðstöðinni verða 35 stöðugildi læknaritara í fyrstu en stefnt að fjölgun í 49 þann 1. sepember 2010. Þessir læknaritarar hafa fram að þessu verið í húsnæði hér og þar á deildum Landspítala.
Sími sjúkraskrármiðstöðvarinnar: 543 9204
Símar læknaritara breytast ekki frá því sem verið hefur.
Undirbúningur að opnuninni hefur staðið síðan í janúar og fjölmargir unnið að henni. Í stýrihópi voru Vilhelmína Haraldsdóttir framkvæmdastjóri lyflækningasviðs, Lilja Stefánsdóttir framkvæmdastjóri skurðlækningasviðs, Niels Chr. Nielsen aðstoðarmaður framkvæmdastjóra lækninga og Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir framkvæmdastjóri bráðasviðs. Verkefnisstjóri var Gunnhildur Gunnarsdóttir.
Auk stýrihóps og verkefnissstjóra vann hópur læknaritara alla hugmynda-, gagna- og undirbúningsvinnu varðandi uppbyggingu miðstöðvarinnar, hlutverk, verkefni og verklag.
Helstu markmið með opnun miðstöðvar um sjúkraskrárritun:
- Aukin skilvirkni og gæði við ritun sjúkraskrár
- Samræming á verklagi
- Bætt þjónusta læknaritunar
- Aukið öryggi í meðferð sjúkraskrárgagna sjúklinga
- Dreifing vinnuálags
- Uppbygging þekkingarseturs um verklag við rafræna sjúkraskrá
- Samræming starfslýsinga læknaritara á Landspítala
- Hagræðing í rekstri
- Kennsla
Helstu verkefni:
Meginverkefni sjúkraskrármiðstöðvarinnar er ritun í sjúkraskrá. Læknaritarar munu starfa í hópum og verður læknaritun í samræmi við núverandi skipulag þannig að skilgreindur hópur ritar fyrir hvert klínísk svið undir handleiðslu hópstjóra. Hópstjórar hafa umsjónar- og gæðahlutverk og verða í nánu samstarfi við læknaritara á sérgreinum.
Auk ritunar í sjúkraskrá mun miðstöðin einnig manna vakt læknaritara sem sinnir rauntímaskráningu á bráðamóttöku. Sá læknaritari verður jafnframt öllum sérgreinum aðgengilegur utan dagvinnutíma til kl. 11:00 á kvöldin virka daga og til kl. 20:00 um helgar og ritar sjúkraskrár sem þurfa tafarlausa úrvinnslu.
Þá munu læknaritarar á sjúkraskrármiðstöðinni einnig taka að sér kennslu fyrir læknaritara, læknanema og lækna á vinnu í rafrænni sjúkraskrá en nánari útfærsla á því hlutverki á að liggja fyrir í byrjun september.
Nánari upplýsingar um aðdraganda að opnun sjúkraskrárritunarinnar