Áframhaldandi samstarf Endurhæfingar LR, og World Class var staðfest 14. maí 2010. Gígja Þórðardóttir deildarstjóri, Hafdís Jónsdóttir framkvæmdastjóri og Ólafur Snorri Rafnsson þjálfari í Laugum, öll frá World Class, komu í heimsókn að Laugarásvegi 71 þar sem farið var yfir farsælt samstarf.
Frá árinu 2007 hefur World Class styrkt Endurhæfingu LR með kortum í líkamsrækt og sund fyrir þjónustuþega sem þar hafa dvalið. Alls hafa 25 einstaklingar notið góðs af samstarfinu en lagt er upp með einstaklingsmiðaða æfingaráætlun sem tekur mið af þörfum hvers og eins.
Í Endurhæfingu LR starfa tveir íþróttafræðingar sem hafa umsjón með verkefninu ásamt öðrum starfsmönnum. Gerð hefur verið rannsókn á áhrifum þess og er áformað að þróa það rannsóknarstarf enn frekar. Verkefnið hefur haft mjög góð áhrif á þá sem hafa tekið þátt í því og það er orðið mikilvægur þáttur í því endurhæfingarstarfi sem fer fram í Endurhæfingu LR að Laugarásvegi 71.