|
Samfélagsgeðteymi geðsviðs Landspítala tók formlega til starfa 19. maí 2010. Teymið er fyrsta fjölfaglega samfélagsgeðteymið á geðheilbrigðissviði og hefur aðsetur á Reynimel 55. Teymið heyrir beint undir framkvæmdarstjóra geðsviðs. Guðbjörg Sveinsdóttir er teymisstjóri.
Meginverkefni samfélagsgeðteymisins er að sinna alvarlega veikum einstaklingum sem þarfnast fjölfaglegs stuðnings í samfélaginu. Leitað verður eftir samvinnu og samstarfi við velferðarþjónustu sveitarfélaga og heilsugæslu. Markmið teymisins er að veita fjölfaglega og einstaklingsmiðaða geðheilbrigðisþjónustu ásamt því að tryggja góðan stuðning og eftirfylgd og þannig minnka þörf á innlögnum og stytta legutíma.
Markhópur teymisins eru einstaklingar með alvarlegar geðraskanir í þörf fyrir þéttan faglegan stuðning í samfélaginu og aðstandendur þeirra. Teymið tekur við tilvísunum frá fagfólki, aðstandendum og félagasamtökum. Nánari upplýsingar og tilvísunareyðublað á vefsíðu geðsviðs á upplýsingavef andspítala.
Fjöldi gesta var á Reynimel 55 þegar starfsemi samfélagsgeðteymis hófst formlega. Páll Matthíasson, framkvæmdastjóri geðsviðs, lagði áherslu á mikilvægi slíkrar þjónustu í ræðu sinni. Samfélagsgeðteymisþjónusta hefði verið þróuð til margra ára í nágrannalöndunum og borið góðan árangur fyrir einstaklinga og samfélög.