Háskóli Íslands, Íslensk erfðagreining og Landspítali hafa gert með sér samkomulag um stofnun Mannerfðafræðistofnunnar, nýrrar rannsóknarstofnunar sem ætlað er að verða vettvangur rannsókna á sviði mannerfðafræði á Íslandi og stuðla að aukinni samvinnu innan vísindasamfélagsins hér á landi.
Þessir þrír aðilar eiga nú þegar með sér umfangsmikið samstarf og hafa átt um árabil en Mannerfðafræðistofnun er ætlað að festa það í sessi og verða þungamiðja þróunar þess til framtíðar.
Stefnt er að því að stofnunin verði leiðandi á sínu sviði á hér á landi sem og á heimsvísu. Hún byggir á þeim orðstír sem Íslensk erfðagreining hefur skapað sér í samvinnu við vísindamenn Háskóla Íslands og Landspítala og mun leitast við að vernda hann og efla. Einnig er ætlunin að aðrir háskólar, stofnanir og fyrirtæki í mannerfðafræðirannsóknum geti síðar meir gengið til liðs við stofnunina.
Gert er ráð fyrir að samstarfsaðilarnir myndi samstillta rannsóknareiningu, sem nýtir það besta sem hver stofnun hefur fram að færa í formi sérþekkingar, mannauðs, rannsóknareynslu, gagnasafna og lífsýnabanka, til framfara í vísindum og til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag og alþjóðasamfélagið.
Lögð verður rík áhersla innan stofnunarinnar á að mennta og þjálfa unga vísindamenn og veita doktorsnemum og nýdoktorum sem best brautargengi.
Þegar hefur verið hafist handa við undirbúning að fyrsta langtímaverkefninu sem unnið verður innan hinnar nýju rannsóknarstofnunar þar sem könnuð verða kerfisbundið tengsl milli arfgerða og hinna ýmsu svipgerða (eiginleika) mannsins, s.s. erfðastjórn minnis, hlutfallslegt vægi erfða og umhverfis í tjáningu þess.