Samningur um frumhönnun og gerð alútboðsgagna vegna byggingar nýs Landspítala var undirritaður í K-byggingu á Landspítala Hringbraut föstudaginn 27. ágúst 2010. Samningurinn er milli SPITAL hópsins, sem bar sigur úr bítum í sumar í hönnunarsamkeppni um nýjan Landspítala, og hlutafélagsins Nýr Landspítali ohf., sem stofnað var í vor til að standa að undirbúningi og útboði á byggingu nýs háskólasjúkrahúss við Hringbraut.
Samninginn undirrituðu Gunnar Svavarsson, stjórnarformaður hlutafélagsins Nýr Landspítali ohf., og Arinbjörn Friðriksson, stjórnarformaður SPITAL hópsins. Meðal viðstaddra voru heilbrigðisráðherra, rektor Háskóla Íslands og forstjóri Landspítala. Ákvæði samningsins snúa að deiliskipulagi af Landspítalalóðinni, ásamt umhverfismati áætlana og frumhönnun nýbygginga samkvæmt vinningstillögu SPITAL í hönnunarsamkeppninni – og nær frumhönnunin til meðferðarkjarna, rannsóknarstofuhúss, sjúkrahótels, háskólabygginga og bílastæðahúss. Samningurinn snýr einnig að tengingum nýbygginga við eldri byggingar með undirgöngum og brúm, bæði fyrir umferð og flutninga og að grunnuppbyggingu tæknikerfa samkvæmt gildandi kröfum og tenginga nýrra og eldri kerfa. Jafnframt nær samningurinn til gerðar arkitekta- og verkfræðiþátta í útboðsgögnum fyrir alútboð og verklýsingar sem er nægjanlega langt unnin fyrir slíkt útboð.
SPITAL hópurinn, sem samanstendur af ASK arkitektum, Bjarna Snæbjörnssyni arkitekt, Kanon arkitektum, Medplan, Teiknistofunni Tröð, Landark, Eflu verkfræðistofu, Lagnatækni og Norconsult, fær ríflega 790 milljónir króna fyrir verkið og á að skila því í skilgreindum áföngum. Útboðsgögn vegna fyrstu framkvæmda eiga að liggja fyrir síðsumars 2011. Í framhaldinu mun SPITAL hópurinn aðstoða verkkaupa við verkefnisstjórn og hönnunarrýni samkvæmt nánara samkomulagi. Gert er ráð fyrir alútboði verkefnisins og að ríkið taki bygginguna á langtímaleigu til allt að 40 ára þegar byggingarverktaki hefur lokið umsömdu verki. Vistvæn nálgun skal höfð að leiðarljósi við frumhönnun mannvirkjanna og í allri vinnu miðað við að gerð verði krafa til aðalverktaka um umhverfisvottun mannvirkja við lok framkvæmda.
Samhliða þessum samningi um frumhönnun og gerð alútboðsgagna verður einnig samið við SPITAL hópinn um hönnun undirbúningsframkvæmda á svæðinu, þar með talinn er flutningur Hringbrautar, frumhönnun tengiganga milli bygginga neðanjarðar, flutningur bílastæðis og undirbúningur byggingarsvæðisins.
Um verkefnið:
Ein af meginforsendum hönnunarsamkeppninnar í sumar var að flytja starfsemi Landspítala Fossvogi að Hringbraut og ljúka þannig sameiningu stóru spítalanna á höfuðborgarsvæðinu. Samkeppnin var tvíþætt og náði annars vegar til tillögu að áfangaskiptu skipulagi Hringbrautarlóðarinnar og hins vegar tillögu að frumhönnun 1. áfanga verkefnisins sem samanstendur af spítalastarfsemi í 66.000 m² nýbyggingu og háskólastarfsemi í allt að 10.000 m² nýbyggingu. Í umsögn dómnefndar er vinningstillögunni lýst sem sterkri hugmynd og höfundar nái vel því markmiði sínu að skapa „bæjarsamfélag sem myndar ramma um þverfaglegt samstarf ólíkra greina“.