Fyrsti fundur SPITAL hópsins, sem sigraði í hönnunarkeppni um nýjan Landspítala, með notendahópum á spítalanum var í matsalnum á Landspítala Hringbraut 6. september 2010. Skipaðir hafa verið 14 notendahópar á spítalanum og fleiri gætu bæst við síðar.
Allir notendahóparnir voru boðaðir á þennan fyrsta fund með hönnuðunum, alls um 70 manns. Þar var vinningstillögunni lýst í grófum dráttum og gerð grein fyrir þeim verkefnum sem fyrir liggja. Í kjölfarið fylgja fundir með hverjum hópi fyrir sig og sambærileg fundaröð hönnuða og notenda í Háskóla Íslands verður síðar í haust. Stefnt er að fimm fundahrinum notendahópa og hönnuða nýs Landspítala, þeirri síðustu í byrjun júní 2011.
Útboð undirbúningsframkvæmda er fyrirhugað um þetta leyti á næsta ári og útboðsgögn vegna fyrsta áfanga spítalans, bráðakjarnans, eiga að vera tilbúin 1. febrúar 2012.
Ljósmynd: Fyrsti fundur SPITAL með notendahópum á Landspítala 6. september 2010 - Helgi Már Halldórsson, hönnunarstjóri SPITAL, kynnir vinningstillögu hönnunarhópsins um nýjan Landspítala