Sigrún Knútsdóttir yfirsjúkraþjálfari á Grensási tók við verðlaunum Evrópudeildar Heimssambands sjúkraþjálfara (ER-WCPT) við hátíðlega athöfn á aðalfundi hennar 27. maí í sumar. Sigrún er fyrsti sjúkraþjálfarinn sem fær þessi verðlaun.
Í umsögn dómnefndarinnar segir m.a.
„Hún hefur lagt þung lóð á vogarskálar sjúkraþjálfunar í Evrópu með störfum sínum, sérstaklega á sviði kennslu og þróunar í endurhæfingu mænuskaðaðra og verið mjög virk innan Evrópudeildar Heimssambands sjúkraþjálfara þar sem hún hefur gegnt mörgum mikilvægum störfum”.
Haldið er upp á alþjóðlegan dag sjúkraþjálfara 8. september. Á Landspítala hvetja sjúkraþjálfarar starfsfólkið, í tilefni dagsins, til þess að stunda líkamsrækt og gefa lyftunum frí. Auk þess fylgjast þeir með hreyfingu valinna starfsmanna með skrefamæli til þess að komast að því hversu mikið þeir ganga yfir daginn.
Um Sigrúnu Knútsdóttur:
Hefur verið einn af leiðtogum í íslensku sjúkraþjálfarasamfélagi um langt skeið sem kennari við námsbraut í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands, stjórnandi og formaður Félags íslenskra sjúkraþjálfara. Sigrún var varaformaður í stjórn Evrópudeildar heimssambands sjúkraþjálfara frá 1998 til 2008 og formaður vinnuhóps Evrópudeildarinnar um Evrópusambandsmál. Hún hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum og leitt ýmis verkefni fyrir Félag íslenskra sjúkraþjálfara. Sigrún hefur gegnt stöðu yfirsjúkraþjálfara á endurhæfingardeildinni á Grensási frá 1980