Alþjóðadagur líknarmeðferðar og líknarþjónustu er 9. október 2010. Deginum er ætlað að varpa ljósi á áherslur í líknarmeðferð og vekja athygli á þeim gildum sem líknarmeðferð hvílir á.
Í þetta sinn er dagurinn helgaður samvinnu í sinni breiðustu mynd.
ÁVARP
"Öll þekkjum við einhverja sem búa við langvinnan ólæknandi sjúkdóm. Við dáumst að kjarki og þrautseigju þeirra. Til þess að þeir fjölmörgu einstaklingar sem búa við slíka sjúkdóma njóti bestu lífsgæða þarf samvinnu og samstillt átak sjúklings, fjölskyldu og samfélags.
Nú, frekar en oft áður, er nauðsyn á að hvetja til samstöðu og samvinnu þeirra sem styðja þá og standa vörð um lífsgæði þeirra. Snar þáttur í því að ná settum markmiðum, með lífsgæði einstaklinga að leiðarljósi, er að líknarmeðferð sé kynnt sjúklingi snemma.
Landspítali hefur gefið út nýjar klínískar leiðbeiningar um líknarmeðferð. Með notkun þeirra er stuðlað að breiðu samstarfi allra sem hlúa að langveikum.
Það eru gömul sannindi og ný að samstarf og samvinna skilar bestum árangri innan heilbrigðiskerfisins sem og utan þess. Þegar allir toga í sömu átt er hægt að flytja fjöll. Það öryggi sem langveikir einstaklingar eiga rétt á felst í snurðulausri samvinnu allra sem að þeirra málum koma með stuðningi og skilningi sveitarfélaga og stjórnvalda. Við eigum í heilbrigðisstarfsfólki þann mannauð og í stofnunum þá umgjörð sem gerir okkur kleift að vinna samhent að því marki.
Það hefur skort nokkuð á að líknarmeðferðarúrræði hafi verið sýnileg í umræðunni og fá sjúklingafélög taka þessa umræðu upp á sínum vettvangi, mögulega vegna þess að margir leggja í orðið líkn, merkinguna að vera deyjandi. Það er þó öðru nær. Líknarmeðferð linar þjáningar og bætir lífsgæði og gerir sjúklingum kleift að lifa lífinu lifandi og getur jafnvel lengt lífið eins og nýleg rannsókn sýnir (Temel JS og félagar New England Journal of Medicine 2010 363;8).
Nokkrar mikilvægar staðreyndir:
Starfsemi líknardeilda felst í því að greina og bregðast við erfiðum, líkamlegum eða sálrænum, félagslegum eða tilvistarlegum einkennum sjúklinga með langvinna lífshótandi sjúkdóma. Margir þeirra útskrifast heim eftir skamma dvöl, einkennaminni og með betri lífsgæði.
Því viljum við sem vinnum við líknarmeðferð benda á, að með góðu samstarfi einstaklinga, og heilbrigðisstarfsfólks, sjúklingafélaga og samfélagsþjónustu má ná frábærum árangri í stuðningi við langveika sjúklinga.
Við hvetjum alla til að kynna sér nýjar klíniskar leiðbeiningar um líknarmeðferð."
Jón Eyjólfur Jónsson læknir.