Húsnæði móttökudeildar unglinga og dagdeildar barna á barna- og unglingageðdeild Landspítala, BUGL, var tekið formlega í notkun með viðhöfn 11. nóvember 2010 eftir gagngerar endurbætur.
Undanfarin ár hefur aðstaða BUGL til að sinna hlutverki sínu batnað mjög. Fyrir tveimur árum var ný göngudeildarálma opnuð og nú hefur húsnæði móttökudeildar unglinga og dagdeild barna verið endurbætt verulega. Þar með er lokið tveimur áföngum endurbóta á BUGL af þremur sem hafa verið fyrirhugaðir.
Breytingar á húsnæði legudeildanna: Aukin og endurbætt aðstaða sem sniðin hefur verið að þörfum innlagðra barna, unglinga og fjölskyldna þeirra. Stærstu breytingarnar felast í auknu fjölskyldurými þar sem fjölskyldur geta m.a. verið dálítið út af fyrir sig um leið og þær taka þátt í meðferðinni. Aukin og endurbætt tómstunda- og mataraðstaða. Nauðsynlegir öryggisþættir hafa verið endurskoðaðir og endurbættir og þar vegur þungt rýmra húsnæði.
Margir velunnarar BUGL hafa styrkt deildina og gert þessar nauðsynlegu húsnæðisbreytingar mögulegar. Má þar nefna kvenfélagið Hringinn, Heimilissjóð taugaveiklaðra barna, Kvenfélagasamband Gullbringu- og Kjósarsýslu og Thorvaldsenfélagið. Kvenfélagið Hringurinn gaf til dæmis 50 milljónir króna til endurbótanna.
Barna- og unglingageðdeild Landspítala, BUGL, er til húsa að Dalbraut 12 og fagnar fjörtíu ára afmæli sínu í ár. Hún tók til starfa árið 1970 og hét í upphafi Geðdeild Barnaspítala Hringsins í þakklætisskyni við kvenfélagið Hringinn sem hafði lagt mikið af mörkum við stofnun deildarinnar. Nú tilheyrir barna- og unglingageðdeildin kvenna- og barnasviði Landspítala og sérhæfir sig í mati og meðferð á geðröskunum barna og unglinga. Þar er tekið á móti börnum upp að 18 ára aldri. Á vegum BUGL er börnum og unglingum veitt fjölbreytt og sérhæfð geðheilbrigðisþjónusta. Unnið er þverfaglega og beinist vinnan að barninu og umhverfi þess svo sem foreldrum, heimili og skóla.