Björn Zoëga, forstjóri Landspítala, kynnti rekstur og áherslur næsta árs í starfsemi spítalans á starfsmannafundum 18. nóvember 2010, ásamt framkvæmdastjórum. Fundirnir fóru fram á átta stöðum í húsakynnum Landspítala. Fundaröðin hófst á Landakoti klukkan 11:00 og lauk um kl. 15:40 í anddyri miðstöðvar sjúkraskrárritunar í Kópavogi.
Björn lýsti því ótrúlega erfiða verkefni sem tekist hefur verið á við á Landspítala á þessu ári, að mæta niðurskurði upp á 3.400 milljónir króna. Í máli hans kom fram að nauðsynlegt hefði verið að fækka starfsfólki, minnka sumarafleysingar, minnka lyfjakostnað, draga úr yfirvinnu, fækka sólarhringsrúmum og opna þess í stað dagdeildir og draga verulega úr rannsóknum.
Þrátt fyrir þetta risavaxna verkefni hefði samstillt átak starfsfólks gert það að verkum að nánast öll markmið hefðu náðst og Landspítali væri nú innan fjárheimilda. Á sama tíma hefði traust til stofnunarinnar aukist í samfélaginu og starfsánægja mælist meiri en á síðasta ári.
Forstjóri lagði mikla áherslu á að þetta væri frábær árangur og þakkaði starfsfólki á öllum fundarstöðum fyrir mikið og gott starf.
Staðan fyrir næsta ár kallar á enn frekari niðurskurð. Framlag til Landspítala lækkar um 500 milljónir króna frá fyrra ári sem þýðir í reynd samdrátt upp á 850 milljónir króna þegar horft er til kostnaðarhækkana sem orðið hafa nú þegar.
Björn Zoëga tók fram að ekki væri hægt að bíða með nauðsynlega undirbúnings- og skipulagsvinnu vegna starfsemi Landspítala á næsta ári þótt óvissa væri um endanlega fjármögnun meðan fjárlög hefðu ekki verið samþykkt. Verkefni vetrarins væri að tryggja öryggi sjúklinga og standa vörð um þann rekstrarárangur sem hefði náðst og nú liggi fyrir aðgerðalisti til að bregðast við þeim viðbótarniðurskurði sem við blasi.
Eftirfarandi aðgerðir voru kynntar:
- Starfsmönnum mun fækka um 70 til 100. Reynt verður að forðast uppsagnir en starfsmannavelta nýtt til hins ítrasta.
- Lyfjakostnaður mun lækka.
- Verktakakostnaður verður lækkaður.
- Prentkostnaður verður lækkaður.
- Rúmum verður fækkað og göngudeildir endurskipulagðar.