Nýr íþrótta- og sjúkraþjálfunarsalur var formlega opnaður í húsnæði iðjuþjálfunar á 31C í geðdeildahúsinu við Hringbraut 3. desember 2010.
Í árslok 2008, í tilefni af 100 ára afmæli Klepps, gaf Actavis fé til að efla líkamsrækt og sjúkraþjálfun á geðsviði. Fjárstyrkurinn var notaður til tækjakaupa fyrir líkamsræktarsal á Kleppi. Actavis lét ekki þar við sitja því fyrirtækið veitti síðan fjárstyrk að upphæð 1 milljón króna til tækjakaupa fyrir geðsvið við Hringbraut og markmiðið með fjárstyrknum var að gera inniliggjandi sjúklingum kleift að stunda líkamsrækt.
Ólöf Þórhallsdóttir, sölu- og markaðsstjóri Actavis á Íslandi, afhenti fjárstyrkinn til geðsviðs fyrir hönd fyrirtækisins. Tveir starfsmenn geðsviðs, sem báðir eru íþróttafræðingar, Gunnar Þór Andrésson og Rafn Haraldur Rafnsson settu upp salinn í geðdeildahúsinu við Hringbraut. Þeir völdu tækin og nutu mikillar góðvildar fyrirtækjanna sem tækin voru keypt af. Þessi fyrirtæki voru Örninn, Altis, Bræðurnir Ormsson, Sena og World Class. Heilsueflingarátakið hefur lengi verið á óskalista sjúklinga og starfsmanna geðsviðs og stuðningurinn var því kærkominn.
Mynd: Frá Actavis Hrönn Ágústdóttir lyfjakynnir, Sigrún Tryggvadóttir markaðsfulltrúi og Ólöf Þórhallsdóttir, sölu- og markaðsstjóri. Íþróttafræðingarnir Gunnar Þór Andrésson og Rafn Haraldur Rafnsson. Páll Matthíasson, framkvæmdastjóri geðsviðs og María Einisdóttir mannauðsstjóri.