- Könnun á starfsumhverfi starfsmanna á Landspítala 2010 - heildarniðurstöður
- Könnun á starfsumhverfi starfsmanna Landspítala - starfsheiti
Niðurstöður úr könnun á starfsumhverfi á Landspítala haustið 2010 liggja hér fyrir í tveimur skýrslum. Annars vegar er ein heildarskýrsla fyrir Landspítala þar sem sviðin eru borin saman fyrir hverja og eina þeirra spurninga sem til skoðunar voru. Hins vegar skýrsla þar sem skoðað er hvernig starfsfólk með ólík starfsheiti svarar þessum sömu spurningum.
Björn Zoëga, forstjóri Landspítala og Erna Einarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs, fjalla um niðurstöðurnar í bréfi:
- Helstu niðurstöður eru að starfsmenn eru almennt mjög sáttir við sig og sitt framlag til starfseminnar en eftir því sem þeir meta það sem er þeim fjær verður niðurstaðan lakari. Þannig fær Landspítali sem heild ekki nógu gott mat. Segja má að það sem fellur undir „Stefna og áherslur“, „Samstarfshópur“ og „Líðan í starfi“ sé á góðu róli þótt um nokkurn breytileika sé að ræða. Stóru klínísku sviðin eru á bærilegri siglingu, litlu stoðsviðin koma vel út en önnur svið eru með lakari útkomu. Af starfsheitum má sjá að þeir sem bera stjórnunartitla eru yfirleitt með gott mat en nokkrir hópar bera sig ekki nógu vel. Af einstökum atriðum sem huga þarf að er t.d. mikil þreyta og líkamleg álagseinkenni. Þá er tíðni óæskilegra samskipta of mikil. Of mörgum á Landspítala þykir hann ekki nógu aðlaðandi vinnustaður, ekki með nægilega opna umræðu, ekki vera jafn fyrir alla eða með nægilega góðan starfsanda. Þá er enn verk að vinna sem snýr að verðmerkingum og kostnaðarvitund.
Á grundvelli niðurstaðna könnunarinnar hefur verið ákveðið að eftirfarandi verði gert:
1. Gripið til aðgerða sem gætu minnkað þreytu og álagseinkenni starfsmanna. Þetta verði gert með því að taka mið af þessum niðurstöðum í þeirri endurskipulagningu og greiningu á ferlum og mannaflaþörf sem á sér stað. Þá verði starfsfólk hvatt til heilsuræktar, efnt verði til tilraunar um stutta hvíldarstund og boðið verði upp á námskeið um líkamsbeitingu.
2. Skipaður úrbótahópur til þess að gera Landspítala að meira aðlaðandi vinnustað, auka virðingu fyrir störfum annarra og viðfangsefnum og bæta samsömun með Landspítala.
3. Efna til átaksverkefnis um „betri samskipti“.
4. Grípa til aðgerða á hverju sviði fyrir sig eftir því sem niðurstöður leiðbeina um.
5. Vinna með þeim starfshópum sem koma ekki vel út úr könnuninni að því að bæta stöðu þeirra og líðan.
6. Efla og þróa þjálfun stjórnenda í takt við niðurstöður stjórnendamats.