Landspítali og 365 miðlar hafa samið um takmarkaða dreifingu á efni Stöðvar 2 sport til 1. febrúar 2011 þannig að sjúklingar og aðstandendur, sem eiga þess kost, geti fylgst með handboltalandsliðinu á heimsmeistaramótinu í Svíþjóð.
Útsendingu Stöðvar 2 sport verður dreift í innanhússkerfi á Landspítala Hringbraut og Landspítala Fossvogi en auk þess settir upp myndlyklar á Landakoti, Kleppi, Grensási og á líknardeildinni í Kópavogi. Landspítali greiðir áskriftargjald af myndlyklum þennan tíma en 365 miðlar sjá um uppsetningu þeirra. Stefnt er að því að þetta verði tilbúið fyrir leikinn við Þjóðverja laugardaginn 22. janúar.