Líf - styrktarfélag stendur fyrir landssöfnun til stuðnings kvennadeildum Landspítala sem nær hápunkti með dagskrá á Stöð 2 föstudaginn 4. mars 2011.
Markmiðið er að safna fé til að ljúka endurbótum á kvennadeildahúsinu og nútímavæða það. Hluti söfnunarfjárins fer til uppbyggingar kvenlækninga þar sem þarf aðstöðu fyrir sjúklinga og aðstandendur ásamt því að endurnýja tækjabúnað. Um 70 prósent fæðinga á landinu, auk annarra kvenlækninga svo sem vegna krabbameins í legi og brjóstum, eru á kvennadeildum Landspítala.
Nánari upplýsingar um landssöfnuna á vef Lífs - styrktarfélags
Líf - styrktarfélag var stofnað 7. desember 2009 og hefur það meginmarkmið að styðja við og styrkja kvennadeildir Landspítala, bæta aðbúnað og þjónustu við konur og fjölskyldur á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu og kvenna sem þurfa umönnun vegna kvensjúkdóma.