Hver starfsmaður hefur boðtæki með rauðum hnappi sem þrýst er á ef hætta eða neyð steðjar að. Við það fara boð sem birtast á skjám í vaktrýmum og afgreiðslu. Á þeim sést hvaðan viðvörunin kemur og hávært píp vekur athygli á hættuástandinu. Nokkrir starfsmanna eru auk þess með símboða þar sem sömu upplýsingar koma fram og lögreglan fær boð um að koma þegar í stað til aðstoðar.
Fyrir kemur að öryggi starfsmanna bráðamóttökunnar sé ógnað afgerandi af fólki sem er til meðferðar með andlegu eða líkamlegu ofbeldi, jafnvel vopnum. Tilgangur með öryggishnappakerfinu er að auðvelda starfsmönnum að kalla eftir hjálp ef hætta af því tagi skapast eða einhver önnur alvarleg vá steðjar að þeim eða sjúklingum.
Auk neyðarhnappakerfisins hafa verið sett upp ljós á báðum deildum bráðamóttökunnar, bráðadeild á G2 og bráða- og göngudeild á G3, sem gefa til kynna mismunandi viðbúnaðarástand í starfseminni samkvæmt viðbragðsáætlun Landspítala, gult eða rautt, eftir eðli og umfangi ástandsins.