Starfsemi Landspítala er í dag á 17 mismunandi stöðum í nærri 100 mismunandi húsum! Um 80% húsnæðis spítalans er hannað fyrir meira en hálfri öld, fyrir sjúkrahússtarfssemi sem var allt annars eðlis en nú er, og sum fyrir önnur not en heilbrigðisþjónustu. Liggur í augum uppi hversu umhendis og dýr rekstur er við þessar aðstæður en færri gera sér grein fyrir því að í þessu er fólgin umtalsverð áhætta fyrir sjúklinga, einkum þá sem eru með margslungin vandamál. Sveigjanleiki er lykilorð við hönnun nútíma sjúkrahúsa, sem þýðir að auðvelt er að breyta húsnæðinu til að aðlaga það breyttum þörfum. Þessu gamla, tvístraða húsnæði verður ekki breytt til samræmis kröfum nútímans um aðbúnað sjúklinga og vinnuaðstöðu starfsmanna eða að rökréttu samhengi starfseminnar.
Björn Zoëga, forstjóri Landspítala, og Jóhannes M. Gunnarsson, læknisfræðilegur verkefnisstjóri nýs Landspítala, skrifuðu grein í Morgunblaðið um stöðu háskólasjúkrahúss Íslendinga nú og í framtíðinni. Í greininni er fjallað ítarlega um undirbúning að byggingu nýs Landspítala og þann margs konar ávinning sem næst með því að ljúka því verkefni sem nú er á góðum skriði og er því sem næst á áætlun.