Landssöfnunin Gefðu líf til styrktar kvennadeildum Landspítala tókst mjög vel. Yfir 65 milljónir króna söfnuðust í beinni útsendingu á Stöð 2 föstudagskvöldið 4. mars 2011.
Líf, styrktarfélag kvennadeildar LSH, stóð fyrir söfnuninni og segir Bjarney Harðardóttir, formaður þess, í þakkarbréfi til landsmanna að mikill velvilji almennings í garð kvennadeildanna hafi komið skýrt fram:
"Margir komu að gerð þátttarins og lögðu sitt af mörkum í aðdraganda söfnunarinnar sem hófst þann 16. febrúar. Viljum við nota tækifærið og þakka öllum þeim sem komu að þættinum fyrir ómetanlegt framlag, ánægjulegt samstarf og frábæra samveru.
Landsöfnunin markar upphaf fyrir styrktarfélagið Líf sem hefur þann
tilgang að styrkja kvennadeild Landspítalans. Flest börn á Íslandi
fæðast á kvennadeild LSH og nánast hver einasta kona á landinu, og þar
með hver fjölskylda, þarfnast þjónustu kvennadeildar einhvern tíma á
ævinni.
Brýn þörf er á að bæta aðstöðu og tækjabúnað deildarinnar og mun söfnunarféð nýtast vel til þess. Á heimasíðu félagsins www.gefdulif.is er hægt að fylgjast með félaginu og úthlutun fjármuna.
Landsmenn fá bestu þakkir fyrir sýndan samhug og velvilja.
f.h. Lífs, Bjarney Harðardóttir, formaður"