Markmið stjórnunarverðlaunanna er að vekja athygli á framúrskarandi starfi stjórnenda sem eru aðilar að Stjórnvísi og hvetja félagsmenn til áframhaldandi faglegra starfa og árangurs.
Félagar í Stjórnvísi tilnefna stjórnanda, einn eða fleiri, sem þeir telja hafa skarað framúr. Fimmtíu stjórnendur voru formlega tilnefndir að þessu sinni úr hundruðum ábendinga. Guðmundur S. Pétursson, gæðastjóri Landsvirkjunar, fékk verðlaunin í flokki gæðastjórnunar og Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri Nova, í flokki markaðsstjórnunar.
Nánar um stjórnunarverðlaunin á vef Stjórnvísi, svo sem um rökstuðning og tilnefningar.
Stjórnvísi er stærsta stjórnunarfélag á Íslandi með yfir 1.100 félagsmenn og koma þeir frá vel á þriðja hundrað fyrirtækja. Félagið er opið öllum einstaklingum og fyrirtækjum sem hafa áhuga á stjórnun og að fylgjast með nýjustu stefnum og straumum í stjórnun. Félagið er 25 ára á þessu ári og hét áður Gæðastjórnunarfélag Íslands.
Landspítali á aðild að Stjórnvísi. Allir starfsmenn spítalans geta sótt þá fræðslu sem félagið býður upp á sér að kostnaðarlausu nema annað sé tekið sérstaklega fram. Hægt er að velja sér faghóp sem hentar hverjum og einum og hafa margir starfsmenn Landspítala verið virkir í starfsemi Stjórnvísi, svo sem Ína Björg Hjálmarsdóttir, gæðastjóri í Blóðbankanum, sem tilnefnd var til stjórnunarverðlauna í flokki gæðastjórnunar.