Heiðursvísindamaður ársins 2011 á Landspítala er Einar Stefánsson augnlæknir.
Tilkynnt var um þetta á Vísindum á vordögum á Landspítala sem hófust 28. apríl og vísindamaðurinn kynnti niðurstöður rannsókna sinna.
Einar er mikilvirkur vísindamaður og hefur beitt sér sérstaklega í nýsköpun og stofnun sprotafyrirtækja sem byggja á vísindalegum grunni.
Einar Stefánsson fæddist í Reykjavík 1952. Hann er stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík og lauk læknaprófi frá Háskóla Íslands 1978. Hann hélt til Bandaríkjanna þar sem hann lauk doktorsprófi í lífeðlisfræði 1981. Einar nam augnlækningar við Duke háskólann í Norður Karólínu og starfaði þar sem lektor og augnlæknir þar til hann kom til Íslands 1989 sem prófessor í augnlækningum og yfirlæknir á augndeild Landakotsspítala og síðar Landspítala. Hann var gestavísindamaður á National Institutes of Health 1985-1986. Einar var varaforseti og forseti læknadeildar Háskóla Íslands 1993-1998.
Vísindastörf Einars og samstarfsmanna hafa leitt til fjölmargra merkra uppgötvana og nýsköpunar. Má þar helst nefna:
1. Súrefnisbúskapur í augum. Þeir hafa þróað mælitæki til að mæla súrefnisástand augna í mönnum.
2. Lyfjaþróun. Rannsóknarhópurinn hefur þróað nanótækni til að koma lyfjum betur inn í auga.
3. Blinduvarnir í sykursýki. Hér hefur rannsóknarhópurinn m.a. þróað áhættugreiningu og hugbúnað til að stýra augnskimun í sykursýki og hagræða heilbrigðisþjónustu með vísindalegur aðferðum.
Ritrýndar greinar Einars eru yfir 200 talsins, auk fjölda bókarkafla, einkaleyfa og mörg hundruð ágripa á ráðstefnum. Hann hefur verið heiðraður víða um heim fyrir vísindastörf. Einar er og hefur verið í stjórn nokkurra aðþjóðlegra samtaka á sviði augnlækninga og vísinda. Hann er aðalritstjóri Acta Ophthalmologica, alþjóðlegs vísindatímarits á sviði augnlækninga og í ritstjórn fáeinna annarra vísindatímarita.