"Á leið inn í samfélagið - breytingar í geðþjónustunni" er yfirskrift árlegs málþings geðsviðs Landspítala sem haldið verður í Öskju, Sturlugötu 7, stofu 132, föstudaginn 6. maí 2011.
Ókeypis og öllum opið.
Fjölmargir úr velferðarþjónustunni kynna þær breytingar sem orðið hafa á geðheilbrigðisþjónustu síðustu tvö árin. Í kjölfar þessarar kynningar heldur erindi Graham Thornicroft, prófessor við Geðfræðastofnun Lundúnaháskóla (Institute of Psychiatry, University of London) og samfélagsgeðlæknir í Lundúnum, sem hann kallar: "Better mental health care - community based services". Að lokum verður pallborðsumræða um það hvað framundan er.
Graham Thornicroft er samfélagsgeðlæknir í Suður London í Englandi. Hann rekur jafnframt stóra rannsóknarstofnun "Health Service and Population Research Deparment" innan Institute of Psychiatry í London og er afar afkastamikill og virtur fræðimaður og ráðgjafi á sviði þróunar í skipulagi geðheilbrigðisþjónustu. Hann hefur skrifað 23 bækur og yfir 200 vísindagreinar um þessi málefni og verið einn helsti ráðgjafi Bretlands um skipulag geðheilbrigðisþjónustu síðasta áratuginn. Hann er reglulegur ráðgjafi Evrópusambandsins og Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um geðheilbrigðismál Jafnframt hefur hann ráðlagt fjölmörgum þjóðum varðandi breytingar á geðheilbrigðiskerfum.