Haldin verður bráðaflokkunarvika 20.-27. maí 2011. Markmiðið er að vekja athygli á bráðaflokkunarkerfi og efla þekkingu viðbragðsaðila á vettvangi.
Þátttakendur í bráðaflokkunarvikunni eru viðbragðsaðilar samkvæmt reglugerð nr. 100/2009. Fræðsla verður um bráðaflokkun, bráðaflokkunartöskur liggja frammi og kennsluefni verður aðgengilegt á vefsíðum viðbragðsaðilanna.
Bráðaflokkun er flokkunarkerfi sem notað er hér á landi og erlendis í stórslysum eða hamförum. Innleiðing þess hefur staðið yfir í tvö ár. Það er einfalt í notkun og styður viðbragðsaðila við að greina stórslasaða frá minna slösuðum og auðveldar þeim þannig að koma þeim sem mest þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda sem fyrst undir læknishendur. Bráðaflokkunartöskur eru í öllum farartækjum viðbragðsaðila.
Aðilar að bráðaflokkunarviku eru lögregluembættin, slökkviliðin, heilbrigðisstofnanir, rekstraraðilar sjúkraflutninga, Neyðarlínan, ISAVIA, Landhelgisgæslan, björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Rauða kross deildir. Starfsmenn Landlæknisembættis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra skipulögðu bráðaflokkunarvikuna í samvinnu við velferðarráðuneytið.