Björn Jóhannsson, Inga Ívarsdóttir og synir þeirra, Snorri, Ívar Örn, Björn Ingi og Finnur, hafa fært fæðingardeild Landspítala að gjöf tæki sem mælir blóðþrýsting, púls og súrefnismettun. Tegundin er CMS Sure Signs VS2 og verðgildið um 400 þúsund krónur. Fjölskyldan afhenti tækið 1. júní 2011 á afmælisdegi Ingu.
Björn varð fimmtugur í janúar síðastliðnum og bað um að í stað þess að fá gjafir yrðu lagðir peningar á reikning sem fæðingardeildin nyti góðs af:
"Við hjónin eigum 4 stráka sem allir fæddust á Landspítalanum á árunum 1990 til 2003. Við, eins og ábyggilega allir sem þangað koma, nutum einstakrar umönnunar og fagmennsku hjá öllu starfsfólki hvort heldur það voru sjúkraliðar, ljósmæður, læknar eða aðrir sem að málum komu.
Við höfðum oft rætt það okkar í milli að við vildum gjarnan þakka fyrir þessa frábæru þjónustu með einum eða öðrum hætti og þar sem ég átti afmæli í vetur ákváðum við að beina því til gesta í afmælisboðinu að leggja fæðingardeildinni lið með frjálsum framlögum og sleppa gjöfunum, enda á ég nóg af koníaki og blómavösum.
Úr varð að keypt var eitt tæki fyrir þá peninga sem komu inn og ég er afar þakklátur mínum góðu afmælisgestum sem tóku þátt í kaupunum. Það er svo aftur á móti umhugsunarefni fyrir okkur sem þjóð að í dag eru spítalar svo aðþrengdir peningalega að ekki eru keypt inn tæki nema fyrir gjafafé."