Verið er að gera lítinn garð við geðdeildahúsið á Landspítala Hringbraut. Það eru ánægjulegar fréttir fyrir sjúklinga og starfsfólk geðsviðs því garður þessi er búinn að vera lengi á óskalista.
Evrópunefndin um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu hefur í skýrslum sínum mælt með því við stjórnvöld á Íslandi að sjúklingar sem hafa verið nauðungarvistaðir geti átt þess kost að dvelja í fersku lofti daglega. Nú hefur verið ráðist í það að girða af hluta lóðarinnar við geðdeildahúsið og gera þar vistlegt svæði sem verður aðgengilegt til útivistar fyrir þá sjúklinga sem hingað til hafa ekki átt þess kost að njóta slíks í veikindum sínum.