Vika bráðahjúkrunar verður á Landspítala 7. til 11. nóvember 2011, þriðja árið í röð. Að vikunni standa hjúkrunarfræðingar á bráðadeild G2 og bráða- og göngudeild G3 í samvinnu við fagdeild bráðahjúkrunarfræðinga.
Tilgangur með viku bráðahjúkrunar er að gera störf bráðahjúkrunarfræðinga sýnilegri, jafnt fyrir skjólstæðingum sem samstarfsfólki. Einnig er leitast við að heiðra þá hollustu sem bráðahjúkrunarfræðingar sýna skjólstæðingum sínum með sérhæfðri bráðahjúkrun, umhyggju og umönnun skjólstæðinga, hvort sem um er að ræða einstaklinga, fjölskyldur, hópa eða samfélög.
Að venju verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá í vikunni og veitir meðfylgjandi dagskrá innsýn í það sem koma skal. Einnig verður veggspjaldasýning og fleira áhugavert til sýnis á báðum deildum.