Kvenfélagið Hringurinn styrkti nýlega vökudeild Barnaspítala Hringsins til kaupa á tækjum og búnaði að heildarvirði tæplega 12 milljónir króna.
Þessi búnaður og tæki eru öll komin í notkun á deildinni og nýtast afar vel við meðferð yngstu barnanna á spítalanum.
Þetta eru hátíðniöndunarvél, kælibúnaður, þrjú Neopuff tæki (súrefnis- og öndunarstuðningur), Bilisoft blanket ljósgjafi vegna gulu, þrjú laryngoscope tæki og átta öndunarmælar (Neonatal Respiration Monitor).
Eins og kunnugt er hefur Hringurinn kvenfélag margoft stutt Barnaspítalann til tækjakaupa og er stuðningur félagsins ómetanlegur því úr litlu sem engu er að spila til tækjakaupa vegna takmarkaðra fjárframlaga.
Stjórn Hringsins kom í heimsókn á vökudeildina 8. nóvember 2011 og afhenti tækin og búnaðinn formlega. Við það tækifæri gerði Þórður Þórkelsson yfirlæknir stutta grein fyrir starfsemi vökudeildarinnar. Hann og Margrét Ó. Thorlacius deildarstjóri sýndu Hringskonum síðan hvernig tæki og búnaður er notaður og buðu upp á kaffi og með því á eftir.