Fyrirhugað er að rannsaka ýmsa þætti í faraldsfræði pneumókokka á Íslandi og áhrif bólusetninga gegn þeim á heilsu manna, sýklalyfjaónæmi, kostnað og útbreiðslu bakteríunnar. Rannsóknin á að standa í þrjú ár og kostnaður er áætlaður nálægt einni milljón evra. Fyrirtækið GlaxoSmithKline (GSK) greiðir þann kostnað með styrk sem veittur er rannsóknarhópi á Landspítala og við læknadeild Háskóla Íslands. Rannsóknin hafði einnig fengið styrk úr Vísindasjóði Landspítala.
Meginmarkmið rannsóknarinnar er að kanna áhrif' pneumókokkabólusetningar m.a. á eftirtalda þætti:
1) Nýgengi bráðrar miðeyrnabólgu, lungnabólgu, blóðsýkinga og heilahimnubólgu af völdum pneumókokka á Íslandi.
2) Samsetningu hjúp- og stofngerða pneumókokka sem valda sýkingum fyrir og eftir bólusetningu og faraldsfræðilega þætti.
3) Sýklalyfjaónæmi hjá pneumókokkum.
4) Heilsuhagfræðilega þætti.
Við rannsóknina verður beitt ýmsum rannsóknaraðferðum, m.a. verða hjúpgerðir bakteríanna metnar sem og sameindafræðileg gerð þeirra.
Pneumókokkar eru bakteríutegund sem veldur algengum sýkingum eins og eyrnabólgum og skútabólgum og alvarlegum, lífshættulegum sýkingum svo sem blóðsýkingum, heilahimnubólgu og lungnabólgu. Um nokkurra ára skeið hefur verið til bóluefni gegn nokkrum algengum tegundum þessarar bakteríu sem hefur verið notað í mörgum löndum Evrópu og í Bandaríkjunum með góðum árangri. Á síðastliðnu ári hófust sambærilegar bólusetningar gegn pneumókokkum á Íslandi með bóluefni frá GlaxoSmithKline (GSK) og er nú öllum börnum á fyrsta aldursári boðin slík bólusetning þeim að kostnaðarlausu. Vonast er til þess að í kjölfarið muni pneumókokkasýkingum fækka og draga úr sýklalyfjanotkun og sýklalyfjaónæmi.
Ásgeir Haraldsson, prófessor í barnalækningum og yfirlæknir á Barnaspítala Hringsins, Karl G Kristinsson, prófessor í sýklafræði og yfirlæknir og Helga Erlendsdóttir, lífeindafræðingur og klínískur prófessor við sýklafræðideild Landspítala, eru meðal þeirra sem á undanförnum árum hafa rannsakað ýmsa þætti pneumókokkasýkinga á Íslandi. Þau leiða rannsóknarhópinn sem hefur nú verið styrktur til áframhaldandi rannsókna á þessu sviði í samræmi við rannsóknaráform sem lagt var upp með. Forsenda þessa háa styrks er m.a. gagnasöfnun og vísindavinna sem rannsóknarhópurinn og samstarfsfólk hefur stundað undanfarin ár.
Eins og fram er komið er það fyrirtækið GlaxoSmithKline sem styrkir rannsóknina en það er meðal fremstu frumlyfja- og heilsufyrirtækja í heimi. Markmið þess er að bæta lífsgæði fólks með því að gera því kleift að áorka meiru, líða betur og lifa lengur. Nánari upplýsingar um fyrirtækið má finna á www.gsk.com