Síðustu daga hafa birst um allan Landspítala gulir borðar og margir klóra sér í höfðinu yfir hvað þetta á að tákna. Reyndar stendur yfir ansi skemmtileg ágiskunarkeppni á samskiptamiðlinum Workplace þar sem hver skemmtileg tillagan rekur aðra. En nú er komið að því að leysa frá skjóðunni því þessum borðum er svo sannarlega ætlað að vekja athygli ykkar. Gulur er litur árverkni og á mánudaginn hefst vikulangt árverknisátak hjá okkur undir yfirskriftinni „Brjótum hefðir - Bætum þjónustu“ eins og Alma D. Möller, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landspítala, segir hérna frá (myndskeið).
Á lean-umbótavegferðinni okkar höfum við leitað ýmissa leiða til að bæta þjónustuna hjá okkur og við spyrjum okkur lykilspurningarinnar af hverju? Hvers vegna gerum við hlutina eins og við gerum þá og erum við örugglega að gera réttu hlutina á réttum tíma? Getum við bætt, breytt eða brotið hefðir á spítalanum til þess að efla þjónustu okkar og upplifun sjúklinga og okkar sjálfra. Hér fetum við í fótspor 300 sjúkrahúsa sem farið hafa þessa vegferð undir yfirskriftinni „Breaking the Rules for Better Care“. Á heimsvísu er það Institute for Healthcare Improvement (IHI) sem leiðir átakið og markmiðið er að auka hraða umbóta og virkja starfsfólk til þátttöku. Ég hvet ykkur til að taka þátt!
Síðustu vikur hafa verið þungar undir fæti hjá okkur og óviðunandi á stundum. Mikill fjöldi leitar til okkar dag hvern og flæðishindranir í starfseminni eru okkur talsverður fjötur um fót. Við höfum átt í nánu samstarfi við velferðarráðuneytið í þessari þungu stöðu og í morgun sóttu fulltrúar þess stöðufund og kynntust hvernig við saman gerum hvað við getum til að liðka til í starfseminni. Það var okkur öllum gagnlegt að eiga þessar beinu samræður á miðjum vettvangi og samstarfsvilji af þessu tagi er okkur afar dýrmætur.
Hápunktur hins árlega Bráðadags Landspítala er þverfagleg ráðstefna flæðisviðs spítalans sem ber núna yfirskriftina „Fjölbreytileiki í bráðaþjónustu“ og verður haldin föstudaginn 2. mars. Á ráðstefnunni fjalla 18 íslenskir og 4 erlendir fyrirlesarar um ýmis verkefni og rannsóknir auk þess sem 11 spennandi verkefni verða kynnt á veggspjöldum á ráðstefnusvæðinu. Þessi metnaðarfulla ráðstefna er enn eitt verkefnið í fróðleiksmiðlun sem Landspítali stendur að og verður örugglega sótt af hundruðum gesta í ár sem fyrr.
Við höldum áfram að leita allra leiða til að tryggja sjúklingum okkar örugga þjónustu. Stóru sóknarfærin framundan eru trúlega frekar í samstarfi mismunandi þátta velferðarþjónustunnar. Þó er enn heilmargt sem við getum gert hér innan húss til að bæta þjónustu við einstaka hópa. Veikir aldraðir eru okkar stærsti „kúnnahópur“ og metnaður í þjónustu við þá er afar mikill, eins sjá má hér í meðfylgjandi Umbótaverkefni í öldrunarþjónustu (myndskeiði) en það fjallar um röð umbótaverkefna í öldrunarþjónustu.
Góða helgi!
Páll Matthíasson