Kæra samstarfsfólk!
Þær fréttir bárust í dag að ljósmæður hafa fellt nýgerðan kjarasamning. Við gerum ráð fyrir að uppsagnir ljósmæðra, sem taka eiga gildi hinn 1. júlí, muni gera það. Einkum er um að ræða ljósmæður á meðgöngu- og sængurlegudeild, þar sem konur í áhættumeðgöngu dvelja ásamt konum sem ekki geta útskrifast heim strax að fæðingu lokinni. Það er því ljóst að alvarleg staða blasir við í þessari þjónustu og gera má ráð fyrir skertri þjónustu við þær konur sem á henni þurfa að halda. Það ríður á að samningsaðilar setjist strax aftur að samningaborði og ljúki samningum áður en til þessa kemur.
Framundan er annasamt sumar á Landspítala. Eins og ég hef áður rakið í fyrri pistli, þá liggur fyrir að sumarlokanir munu hafa meiri áhrif á starfsemina þetta sumarið en fyrri sumur, jafnvel þótt færri rúmum verði lokað. Það ræðst annars vegar af því að tímabil fækkunar opinna rúma er lengra að þessu sinni og að þegar hefur verið dregið úr fjölda opinna rúma vegna skorts á hjúkrunarfræðingum. Þetta mun óhjákvæmilega hafa þau áhrif að við munum þurfa að hraða útskriftum eins og kostur er. Afskaplega mikilvægt er að þetta ferli gangi hratt og vel fyrir sig nú þegar raunin er sú að bráðalegurými eru af skornum skammti. Allir sem leggjast inn á bráðalegudeild eru með bráð vandamál sem krefjast úrlausnar. Því þarf að útskrifa fólk eins skjótt og hægt er til að geta tekið á móti nýjum sjúklingum, allan sólarhringinn, allt árið um kring.
Þetta gildir sérstaklega um þá sem lokið hafa þeirri meðferð sem Landspítali getur veitt, enda er of löng dvöl á Landspítala síst til bóta, einkum fyrir eldra fólk. Við finnum oft fyrir kvíða aðstandenda sem standa frammi fyrir útskrift ástvinar og telja að spítalinn sé þeim örugg höfn. Það er Landspítali sannarlega þeim ungu jafnt sem öldruðu sem þurfa meðferð við bráðum vandamálum. En þegar að meðferð er lokið er afar áríðandi fólk komist af spítalanum sem allra fyrst, heilsu þeirra og bata vegna. Bráðalegudeild er mikilvægt úrræði fyrir bráð vandamál en áríðandi er að fólk komist síðan sem fyrst í sitt heimaumhverfi með viðeigandi aðstoð.
Greinargóðar upplýsingar er að finna á www.adstandandi.is um þau úrræði og aðstoð sem að fólki stendur til boða. Við höfum gripið til ýmissa úrræða og höfum til dæmis átt í góðu samstarfi við Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi. Þar er rekin afar vel heppnuð og vönduð deild fyrir aldraða sem lokið hafa meðferð á Landspítala og bíða hjúkrunarheimilis. Vissulega hefur mörgum þótt erfitt að fara frá Reykjavík á deildina uppi í Skaga, en reynsla þeirra sem þangað hafa farið hefur nær undantekningarlaust verið mjög góð.
Fjölskyldur samanstanda af ungum og öldnum sem þurfa aðstoð og vernd á viðkvæmum tímabilum æviskeiðsins. Við berum ábyrgð hvert á öðru.
Góða helgi!
Páll Matthíasson
Leit
Loka