Kæra samstarfsfólk!
Annar öflugur fyrirlesari á málþinginu, dr. Aimee K. Zaas frá Duke-háskóla í Bandaríkjunum, ræddi mikilvægi góðra handleiðara og fyrirmynda í allri kennslu og vísindastarfi. Það var viðeigandi að þessi fyrirlestur var haldinn á málþingi til heiðurs Sigurði Guðmundssyni. Þótt ég leggi það ekki í vana minn að kveðja fólk sérstaklega í þessum pistlum mínum, enda hér einstakt starfsfólk að hætta í hverjum mánuði, þá langar mig til að gera undantekningu nú. Sigurður var handleiðari minn og leiðbeinandi þegar ég vann hér á spítalanum sem námslæknir um miðjan tíunda áratuginn og stuðningur hans og jákvæðni voru ómetanleg. Síðan hvarf Sigurður til annarra starfa, fyrst sem landlæknir í áratug og síðan sem forseti heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands um fimm ára skeið. Nú síðustu sex ár hefur Sigurður snúið aftur til fyrri starfa og starfað sem smitsjúkdómalæknir og kennari hér á spítalanum. Ég veit að fjöldi samstarfsfólks sem og sjúklinga hugsar með hlýhug til leiðsagnar og atorku hans, nú þegar dregur úr vinnu hans á spítalanum og í háskólanum.
Álag í þjónustu
Eins og við öll þekkjum vel er ein helsta áskorun Landspítala útskriftavandi aldraðra. Á vegum Landspítala eru nú um 130 einstaklingar sem bíða hjúkrunarheimilis með gilt færni- og heilsumat (þar af um helmingu reyndar á biðdeildum) en að auki bíða 30-40 manns annarra úrræða eða endurhæfingar. Þeir einstaklingar sem hafa lokið meðferð á Landspítala verða að komast af spítalanum í betur viðeigandi úrræði, um það er engum blöðum að fletta. Annað er ómarkviss nýting á fé, fagfólki og aðstöðu sem takmarkar getu spítalans til að veita almenna og sérhæfða heilbrigðisþjónustu. Meiru skiptir þó að þetta er vont fyrir þá heiðursborgara sem þurfa að bíða allt of lengi eftir búsetu við hæfi. Vandamálið hefur verið reifað í mörgum pistlum mínum - en fyrir því er ástæða. Útskriftavandi aldraðra vex ár frá ári, vandinn magnast vegna manneklu í hjúkrun og afleiðingin er sú að undanfarið hefur mætt meira en við þekkjum áður að hausti á starfsfólki legudeilda og enn meira þó á starfsfólki bráðamóttöku. Ég vil þakka ykkur starfsfólki þessara eininga óeigingjarnt og þrotlaust starf ykkar, við oft erfiðar aðstæður. Við stjórnendur spítalans leitum allra leiða til að takast á við vandann með þeim ráðum sem við höfum. Að auki skynjum við skilning stjórnvalda til að hjálpa spítalanum við að leysa þessi verkefni með mörgum hætti og er ekki vanþörf á, ein leysum við ekki vandann.Framkvæmdir við Hringbraut
Um síðustu helgi urðu mikil tímamót í sögu Landspítala þegar skóflustunga að meðferðarkjarna var tekin. Þetta var hátíðarstund og ánægjulegt að sjá fjölmarga starfsmanna Landspítala njóta stundarinnar með öðrum sem fyrir málinu hafa farið í gegnum tíðina. Framundan er augljóslega talsverð röskun á svæðinu. Í verklýsingu er framkvæmdaraðilum hins vegar skylt að leita allra leiða til að draga sem mest úr þeim áhrifum. Þannig eru m.a. notaðir sérstakir borar, hljóðeinangrandi mottur, bílaþvottahús og sérstakar aðferðir til að rykbinda jarðveg auk þess sem ónæðissamasti hluti vinnunnar fer fram utan háannatíma á spítalanum. Jafnframt eru komin ný bílastæði fyrir spítalann nærri Umferðarmiðstöðinni og verður tekin upp aðgangsstýring þar á næstunni. Ég hvet ykkur eindregið til að fylgjast með tilkynningum á vef spítalans og á workplace um málið. Við viljum lágmarka það rask sem fylgir framkvæmdunum - en framkvæmdir eru víst óhjákvæmilegur undanfari þeirrar nýju tímamótaaðstöðu sem er handan við hornið hér á Landspítala.Öflugt vísindastarf og kennsla
Einn af hornsteinum og lögbundið hlutverk Landspítala er að sinna vísindum og kennslu. Samstarf við háskólastofnanir og þá sérstaklega Háskóla Íslands er þar gríðarmikilvægt. Í morgun vorum við ánægjulega minnt á mikilvægi þessa samstarfs þegar Guðrún Dóra Bjarnadóttir geðlæknir varði doktorsritgerð við Háskóla Íslands. Við doktorsvörnina rakti Guðrún Dóra rannsóknir sínar á þeirri vá sem misnotkun methylfenydats er en niðurstöður rannsóknanna hafa beina þýðingu fyrir þá þjónustu sem spítalinn veitir. Eftir hádegið var síðan málþing til heiðurs Sigurði Guðmundssyni smitsjúkdómalækni og prófessor en hann varð sjötugur nýverið. Á málþinginu ræddi meðal annars Alison Holmes prófessor við Imperial College í London mikilvægi þess að berjast gegn sýklalyfjaónæmi en þar hefur Íslendingum vegnað betur en mörgum nágrannaþjóðum og okkur á Landspítala hefur síðan gengið sérlega vel að berjast gegn spítalasýkingum með samstilltu átaki.Annar öflugur fyrirlesari á málþinginu, dr. Aimee K. Zaas frá Duke-háskóla í Bandaríkjunum, ræddi mikilvægi góðra handleiðara og fyrirmynda í allri kennslu og vísindastarfi. Það var viðeigandi að þessi fyrirlestur var haldinn á málþingi til heiðurs Sigurði Guðmundssyni. Þótt ég leggi það ekki í vana minn að kveðja fólk sérstaklega í þessum pistlum mínum, enda hér einstakt starfsfólk að hætta í hverjum mánuði, þá langar mig til að gera undantekningu nú. Sigurður var handleiðari minn og leiðbeinandi þegar ég vann hér á spítalanum sem námslæknir um miðjan tíunda áratuginn og stuðningur hans og jákvæðni voru ómetanleg. Síðan hvarf Sigurður til annarra starfa, fyrst sem landlæknir í áratug og síðan sem forseti heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands um fimm ára skeið. Nú síðustu sex ár hefur Sigurður snúið aftur til fyrri starfa og starfað sem smitsjúkdómalæknir og kennari hér á spítalanum. Ég veit að fjöldi samstarfsfólks sem og sjúklinga hugsar með hlýhug til leiðsagnar og atorku hans, nú þegar dregur úr vinnu hans á spítalanum og í háskólanum.
Öldrunarþing
Að lokum er rétt að minna á dag öldrunarþjónustu sem haldinn verður 26. október. (linkur)
Góða helgi!
Páll Matthíasson
Mynd: Sigurður Guðmundsson smitsjúkdómalæknir