Kæra samstarfsfólk!
Í dag er dagur öldrunarþjónustu og fór ráðstefnan "Hrumleiki - Frumleiki" fram á Hótel Natura af því tilefni. Öldrunarþjónustan er afar fjölþætt eins og dagskráin endurspeglar. Um er að ræða er einn mest vaxandi geira heilbrigðis- og félagsþjónustunnar og því eru rannsóknir og þekkingarþróun í þessum fræðum samfélaginu sérstaklega mikilvæg. Eðli máls samkvæmt er Landspítali bakhjarl slíkra verkefna en það er ánægjulegt að sjá sífellt fleiri láta til sín taka. Ég hef oft tæpt á því hér á þessum vettvangi að þjónusta við aldraða er ekki einkamál tiltekinna stofnana heldur samfélagslegt verkefni sem við öll eigum að taka þátt í. Verkefni öldrunarþjónustunnar eru fjölþætt og krefjast frumlegra og skapandi lausna inn í framtíðina. Þar liggja klárlega tækifæri til sóknar.
Í gær hélt Sjúkraliðafélag Íslands kveðjuhóf til heiðurs fráfarandi formanni félagsins, Kristínu Á. Guðmundsdóttur, en nýlega tók Sandra Frank við formennsku í félaginu. Saga Sjúkraliðafélagsins sem stéttarfélags er samofin Kristínu sem þar hefur staðið í stafni mikillar baráttu síðustu áratugina. Sjúkraliðar hafa, líkt og læknar, hjúkrunarfræðingar og fleiri staðið vaktina á Landspítala í gegnum þykkt og þunnt og með því lagt grunninn að árangri spítalans. Það er því gríðarlegt áhyggjuefni að við finnum nú sífellt meira fyrir því að sjúkraliða vantar til starfa á spítalanum. Það horfir alvarlega víða hjá okkur hvað þetta varðar. Ég hef átt um þetta samtöl við ráðherra, sem deilir þessum áhyggjum. Við þurfum að hlúa betur að þeim stóru og mikilvægu kvennastéttum sem bera uppi heilbrigðisþjónustuna, þar er verk að vinna.
Að lokum langar mig að minna á bólusetningu við inflúensu sem nú fer fram á spítalanum. Ég hvet starfsfólk eindregið til að ljúka þessari eðlilegu varúðarráðstöfun hið fyrsta enda fyrstu inflúensutilfellin farin að stinga sér niður. Við viljum auðvitað ekki sjálf verða flensunni að bráð en það er ekki síður mikilvægt að hafa í huga að við verndum okkar viðkvæmustu skjólstæðinga með því að láta bólusetja okkur.
Góða helgi!
Páll Matthíasson