Covid-19 skýrsla sem unnin hefur verið um hópsýkinguna alvarlegu sem kom upp á Landspítala Landakoti var birt föstudaginn 13. nóvember 2020. Skýrslan var fyrst kynnt stjórnendum á Landakoti og öðrum stjórnendum Landspítala sem málið varðar sérstaklega, síðan öllu starfsfólki spítalans og loks blaða- og fréttamönnum. Allar þessar kynningar voru á fjarfundum.
Lovísa Björk Ólafsdóttir, sérfræðilæknir í smitsjúkdómum og sýkingavörnum, starfsmaður gæða- og sýkingavarnadeildar Landspítala, gerði skýrsluna.
„Þessi skýrsla birtir frumniðurstöður á samantekt á COVID-19 hópsýkingu sem upp kom á Landakoti þann 22/10/20 og byggja niðurstöður að mestu á tilfellum sem greind voru á tímabilinu 22/10/20-29/10/20. Markmið úttektar var að rýna í upphaf og útbreiðslu hópsýkingar. COVID-19 hópsýkingin á Landakoti er ekki yfirstaðin og því er gagnasöfnun og úrvinnslu ekki lokið. Hér eru því einungis birtar frumniðurstöður þeirra gagna sem búið er að fara yfir.“
Á því tímabili sem skýrslan nær yfir greindust alls 98 COVID-19 tilfelli í tengslum við hópsýkinguna, þar af 52 starfsmenn og 46 sjúklingar.
„Frumniðurstöður faraldsfræðilegrar rannsóknar á COVID-19 tilfellum á Landakoti benda til þess að smit hafi borist inn á stofnunina með nokkrum einstaklingum en einnig er talið hugsanlegt að sum smita á milli starfsmanna megi rekja til eðlilegra náinna samskipta vegna fjölskyldu-og vinatengsla utan vinnustaðar.“
Skýrsluhöfundur telur að ástæður fyrir COVID-19 hópsýkingunni hafi verið margþættar. Í því sambandi er minnt á að sýkingavarnir snúist að mörgu leyti um að rjúfa smitleið meinvalds, í þessu tilfelli SARS-CoV-2 verunnar, á milli næmra einstaklinga. Þar skipti persónubundnar sóttvarnir svo sem handhreinsun, grímunotkun og nándarmörk miklu máli við af hemja útbreiðslu COVID-19. Aðrir veigamiklir þættir til að hemja útbreiðslu sýkinga séu ytri aðstæður svo sem húsnæði, aðbúnaður og hreint umhverfi.
„Talið er líklegt að nokkur smit hafi borist inn á Landakot á skömmum tíma. Það er mat skýrsluhöfundar að með tilliti til sýkingavarnasjónamiða sé ástand húsnæðis, loftskipta og aðbúnaðar á Landakoti ófullnægjandi fyrir þá mikilvægu starfsemi sem þar fer fram og líklega megin orsök þeirrar miklu smitdreifingar sem varð.“
COVID-19 hópsýking á Landspítala - bráðabirgðaskýrsla
Glærukynning á skýrslunni (6,9MB)