Landspítali er á neyðarstigi
Í dag er 21 sjúklingur á Landspítala vegna COVID. 10 eru á smitsjúkdómadeild, þrír á hjartadeild og sex á gjörgæslu - fimm þeirra í öndunarvél. Alls eru þrír lausir úr einangrun að glíma við eftirköst sjúkdómsins.
Í gær voru fjórar bráðainnlagnir og fjórar útskriftir. Af þeim sjúklingum (7) sem hafa greinst inniliggjandi undanfarna daga eru þrír útskrifaðir ýmist heim eða á aðrar stofnanir. Mögulega verða frekari flutningar úr þessum hópi.
Alls hafa nú greinst sjö sjúklingar á hjartadeild (sex inniliggjandi og einn útskrifaður) og sjö starfsmenn (fleiri en einn atburður).
Einn starfsmaður hefur greinst á Landakoti í skimun sem fór þar fram í kjölfar smits hjá inniliggjandi sjúklingi.
Í fjarþjónustu COVID göngudeildar eru nú 5.834, þar af 1.262 börn. Gríðarleg fjölgun er á milli daga. 231 er á gulu og tveir á rauðu.
Nú eru 120 starfsmenn í einangrun vegna COVID. Daglega greinast á þriðja tug starfsmanna. Mikill fjöldi er í sóttkví og er hluti hans við störf í sóttkví B.
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.
1. Heimsóknarbann er á Landspítala en frá hádegi 31. desember og á nýársdag má koma einn gestur til hvers sjúklings á dag. Hann skal vera fullbólusettur eða hafa fengið COVID á síðustu 6 mánuðum. Hann skal nota fínagnagrímu. Börn undir 12 ára ættu ekki að koma í heimsókn. Undanþágur eru eftir sem áður veittar í sérstökum tilvikum af stjórnendum deilda.
2. Leyfi sjúklinga eru aðeins heimil með leyfi farsóttanefndar sem ráðleggur um ráðstafanir og skilyrði.
3. Fundir eru óheimilir, nema fjarfundir.
4. Starfsfólk á öllum bráðamóttökum Landspítala notar nú fínagnagrímu án ventils í sjúklingaumönnun.
5. Áfram er unnið að því að flytja sjúklinga sem lokið hafa meðferð á Landspítala á aðrar heilbrigðisstofnanir.