Frestur til að senda inn umsókn er á miðnætti 22. janúar 2024
Auglýst er eftir umsóknum um allt að 2.5 milljón króna vísindastyrki og um allt að 5 milljón króna hvatningarstyrki. Hvatningarstyrkir eru til eins árs og verða veittir til fjögurra framúrskarandi vísindaverkefna.
Hvatningarstyrkir eru ætlaðir til metnaðarfullra vísindaverkefna með mikið vísindalegt gildi og nýnæmi á alþjóðlegan mælikvarða og líkleg til að birtast í virtum alþjóðlegum vísindaritum með háan áhrifastuðul. Til að geta sótt um verður aðalumsækjandi að hafa birt að lágmarki 5 vísindagreinar í góðum alþjóðlegum ritrýndum ritum sem fyrsti eða síðasti höfundur.
Til að geta sótt um allt að 2.5 milljón króna styrk til vísindaverkefnis þarf aðalumsækjandi að hafa birt að lágmarki 2 vísindagreinar í góðum alþjóðlegum ritrýndum ritum, sem fyrsti eða síðasti höfundur. Þessir styrkir eru ætlaðir til metnaðarfullra verkefna sem líkleg eru til að leiða til birtinga í góðum alþjóðlegum ritrýndum fagtímaritum.
Helstu skilyrði styrkveitinga:
- Umsókn er í samræmi við leiðbeiningar og reglur um úthlutun styrkja úr Vísindasjóði.
- Tilskilin leyfi frá viðeigandi siðanefnd(-um) eru þegar til staðar.
- Aðalumsækjandi er fastráðinn starfsmaður Landspítala í a.m.k. 30% starfi.
- Fullnægjandi framvinduskýrsla fylgir umsókn ef um framhaldsverkefni er að ræða.
- Með umsókn fylgja uppfærðar ferilskrár og ritalistar umsækjenda.
- Allar umbeðnar upplýsingar fylgja umsókn.
Umsóknum sem ekki uppfylla reglur eða skilyrði Vísindasjóðs er vísað frá.
Mikilvægar upplýsingar:
- Aðeins einn styrkur er í boði fyrir hvert vísindaverkefni.
- Hver aðalumsækjandi getur að hámarki sent inn 2 styrkumsóknir og þá til tveggja mismundandi verkefna.
- Ef um er að ræða meistara- eða doktorsverkefni er leiðbeinandi alla jafna aðalumsækjandi.
- Rannsókn sem flokkast til gæðaverkefnis er ekki styrkt.
- Sjóðurinn styrkir ekki vísindarannsókn eða verkhluta rannsóknar sem er þegar lokið.
- Ef ætlunin er að sækja um styrk til verkefnis sem þegar hefur hlotið þrjá styrki úr sjóðnum án greinabirtingar, skal fylla út sérstakt eyðublað fyrir viðbótarstyrk.
Umsóknum er skilað rafrænt í gegnum styrkumsjónakerfi Landspítalans. Umsækjendur eru beðnir um að kynna sér vel reglur og skilyrði umsókna til Vísindasjóðs áður en hafist er handa við gerð umsóknar. Leiðbeiningar um gerð umsókna er að finna á eyðublöðum styrkumsókna í styrkumsjónarkerfinu og einnig á vef Landspítala: Leiðbeiningar fyrir gerð umsókna styrkárið 2024
Vísindaráð Landspítala hefur umsjón með umsóknar- og matsferli umsókna í umboði Vísindasjóðs. Fyrirspurnir eru sendar á tölvupóstfangið visindarad@landspitali.is.