Á spítalanum starfa tæplega 30 iðjuþjálfar á átta starfsstöðvum og sinna fólki á öllum aldri.
Ljósmyndari Landspítala, Þorkell Þorkelsson, heimsótti nokkrar þeirra.
Hvað er iðjuþjálfi?
Iðjuþjálfar aðstoða fólk við að efla færni sína og sjálfstæði í að takast á við verkefni dagslegs lífs. Sem dæmi um iðju má nefna það að klæða sig og snyrta, kaupa inn og útbúa mat, aka bíl, afgreiða í búð, gera skólaverkefni, fara í bíó, taka þátt í íþróttum og félagsstarfi eða mála mynd.
Hefur þú áhuga á að læra iðjuþjálfun? Háskólinn á Akureyri býður upp á grunnnám og starfsréttindanám á meistarastigi.
„Iðjuþjálfar í geðþjónustu starfa í þverfaglegum teymum og við vinnum með fólki sem glímir við færniskerðingu til dæmis vegna veikinda, áfalla eða slysa. Við metum í samvinnu við einstaklinginn og stundum aðstandendur hvaða færni viðkomandi vill geta þjálfað upp. Þetta getur verið allt frá því að fara út í búð og yfir í að ráða við félagsleg samskipti. Síðan vinnum við með það í gegnum bæði einstaklings- og hópþjálfun.“ - Sunna Hlynsdóttir, geðþjónusta á Kleppi
„Iðjuþjálfar á bráðadeildum Landspítala vinna fjölbreytt störf á bæði legu- og göngudeildum. Á taugadeild vinnum við til dæmis með fólki sem hefur fengið heilablóðfall og metum færni þeirra til að takast á við daglegar athafnir. Stundum er hægt að þjálfa upp fyrri færni en stundum þarf að finna nýjar leiðir til að gera hlutina og jafnvel nýta hjálpartæki.“ - Sigurbjörg Sigurðardóttir, endurhæfing í Fossvogi
„Á barna- og unglingageðdeild Landspítala vinna iðjuþjálfar með börnum og unglingum sem eru með alvarlegar geð- og þroskaraskanir. Í samvinnu við fjölskyldur þeirra vinnum við með hæfni í daglegu lífi, til dæmis allt sem varðar sjálfsumhirðu, að stunda nám eða vinnu, sinna áhugamálum og eiga félagsleg samskipti.“ - Þórdís Jónsdóttir, barna- og unglingageðdeild
„Iðjuþjálfar á Landakoti vinna í náinni samvinnu við aðrar fagstéttir að endurhæfingu aldraðra einstaklinga með færniskerðingu. Við eflum færni fólks til að sinna athöfnum daglegs lífs, t.d. að komast um, fara á salerni og klæða sig. Við bjóðum upp á fjölbreytt hópastarf og eflum fólk til að finna leiðir til að sinna áhugamálum sínum og eiga góð félagsleg tengsl. Það er enginn vinnudagur eins, við erum sífellt að leita fjölbreyttra lausna til að fólk geti sinnt iðju sinni.“ - Arndís Jónsdóttir, Landakot
„Á Grensási fær fólk endurhæfingu eftir alvarleg slys eða veikindi. Iðjuþjálfar koma að því að byggja fólk upp til að takast á við daglegar athafnir að nýju. Iðjuþjálfunin er skjólstæðingsmiðuð og miðar að því að þjálfa upp færni eða finna nýjar leiðir til að auka sjálfstæði, virkni og möguleika á þátttöku í samfélaginu. Það getur til dæmis verið, að vera sjálfbjarga með að klæða sig og snyrta, elda mat eða komast aftur í nám eða vinnu.“ - Sigrún Ólafsdóttir, Grensás