Timothy var í mótorhjólaferð um hálendi Íslands ásamt vinum sínum þegar hann datt og slasaðist alvarlega í grennd við Gullfoss. Í fyrstu reyndi hann að halda ferðinni áfram en að lokum þurfti að hringja á sjúkrabíl sem fór með hann á Landspítala.
Bataferlið reyndist lengra en talið var í fyrstu og þurfti hann að dvelja á spítalanum í tvær vikur vegna sýkingar í lunga.
Til að sýna þakklæti sitt lét hann hanna sérmerkta kaffibolla með áletruninni „I saved Timothy“ sem hann færði starfsfólki 12G að gjöf, ásamt sérvöldu súkkulaði frá Bandaríkjunum.
Við þökkum Timothy fyrir gjöfina og óskum honum skjóts bata og farsælla ævintýra fram undan.
Meðfylgjandi eru myndir af starfsfólki með bollana auk nokkurra mynda frá Íslandsför Timothy, sem hann gaf okkur góðfúslegt leyfi til að birta.
Timothy og félagar hans á leið í ferðina örlagaríku.
Timothy var þungt haldinn þegar hann lagðist inn á spítalann.
Eftir tveggja vikna dvöl á Landspítala var Timothy orðinn mun hressari.
Á leið aftur heim til Bandaríkjanna eftir viðburðaríka Íslandsför.
Starfsfólk 12G með bollana góðu.
Bollarnir eru mikil listasmíð.